Viðskipti innlent

Gjald­þrot Guð­mundar nam 12 milljörðum

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Guðmundur Ólason sést hér lengst til hægri, við aðalmeðferð í Héraðsdómi Reykjavíkur haustið 2013.
Guðmundur Ólason sést hér lengst til hægri, við aðalmeðferð í Héraðsdómi Reykjavíkur haustið 2013. Vísir/Boði

Alls voru næstum 12 milljarða króna kröfur gerðar í þrotabú Guðmundar Ólasonar, fyrrverandi framkvæmdastjóra Milestone. Skiptum í búið er lokið en aðeins um 86 milljónir fengust upp í kröfurnar, sem gera heimtur upp á 0,7 prósent.

Í auglýsingu í Lögbirtingablaðinu er þess getið að niðurstaða skiptanna hafi verið sú að upp í veðkröfur sem námu samtals 133.800.680 krónum greiddust 86.415.000 krónur, eða 64,58 prósent. Engum forgangskröfum var lýst í búið en ekkert fékkst upp í lýstar almennar eða eftirstæðar kröfur. Lýstar kröfur námu alls 11.992.513.193 krónum.

Karl Emil Wernersson, Steingrímur Wernersson og Guðmundur Ólason voru í Hæstarétti í maí dæmdir til að greiða þrotabúi Milestone 5,2 milljarða króna.

Milestone var í eigu bræðranna Karls og Steingríms ásamt systur þeirra Ingunni Wernersdóttur. Málið sem dæmt var í snerist um kaup þeirra bræðra á eignarhlut Ingunnar í Milestone, sem þeir létu Milestone greiða fyrir. Upphaflega var Ingunni sömuleiðis stefnt en Héraðsdómur Reykjavíkur sýknaði hana í fyrra.

Þeir Guðmundur, Karl og Steingrímur hafa áður verið dæmdir til fangelsisvistar í Hæstarétti vegna sama máls. Í þeim dómi kom fram að þeir hefðu látið Milestone ehf. efna samninga þeirra við Ingunni og greitt henni rúma fimm milljarða króna.


Tengdar fréttir

Milljarðadómur yfir Milestone-mönnum staðfestur

Karl Emil Wernersson, Steingrímur Wernersson og Guðmundur Ólason voru í Hæstarétti í dag dæmdir til að greiða þrotabúi Milestone 5,2 milljarða króna. Hæstiréttur staðfesti þar með niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur í fyrra.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×