Skoðun

Biskup fólksins

Jóna Hrönn Bolladóttir skrifar
Enginn verður óbarinn biskup. Það mátti segja um Jón biskup Vídalín sem fæddist að Görðum á Álftanesi 1666 og samdi mest lesnu bók landsins á 18. og 19. öld; Vídalínspostillu sem í ár er 300 ára. Vinsældir þessa rits stöfuðu af því að þar voru sett orð á lifaðan veruleika landsmanna um leið og afstaða var tekin með fátækum gegn gírugu yfirvaldi.

Barnungur hafði Jón misst Þorkel föður sinn sem var prestur að Görðum og hrakist í fátækt ásamt Margréti móður sinni og systkinum. Fyrir dugnað og afburða gáfur komst hann í Skálholtsskóla og lauk þar námi á þremur árum. Vann svo við sjósókn og önnur störf til að komast til guðfræðináms í Kaupmannahöfn. Fjárvana endaði hann í danska hernum og átti þar erfiða daga uns móður hans tókst að fá hann leystan heim. Hann var prestur að Görðum þegar hann var kjörinn biskup í Skálholti þrítugur að aldri. Við upphaf 18. aldar gengu hörmungatímar yfir landið með frostavetrum auk þess sem stórabóla lagðist á landslýð og felldi fjórðung þjóðarinnar. Lést þá m.a. dóttir Jóns og Sigríðar konu hans, en þau eignuðust tvær dætur sem báðar létust í bernsku. Jón var ekki bara orðsins maður, heldur var hann stórtækur búmaður og úrræðagóður. Voru þau Sigríður samhent og þekkt fyrir gestrisni sína, einkum gagnvart munaðarlausum börnum og fátækum.

Kjarni Vídalínspostillu er vonin og réttlætið. Vonarljósið sem ekkert myrkur getur kæft í sál þess sem afhendir vilja sinn Guði og krafan um að menn iðki réttlæti og notfæri sér ekki náungann í gróðaskyni. Saga Jóns Vídalíns er saga af áfallaþroska. Erfið æska, basl og barnamissir gerði hann ekki bitran heldur vitran og umhyggjusaman svo hugarþel hans nærði þjóðina um langan aldur.




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×