Innlent

Nýr meirihluti í Ölfusi mótmælir styttingu opnunartíma

Kjartan Kjartansson skrifar
Gestur Þór Kristjánsson, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Ölfusi.
Gestur Þór Kristjánsson, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Ölfusi. Sjálfstæðisflokkurinn
Oddviti nýkjörins meirihluta Sjálfstæðisflokksins í Ölfusi sendi Landsbankanum bréf í dag þar sem hann mótmælir harðlega þeirri ákvörðun bankans að stytta afgreiðslutíma og segja upp fólki í útibúi bankans í Þorlákshöfn. Útibúið er eitt af ellefu á landsbyggðinni þar sem bankinn ætlar nú að stytta opnunartímann.

Landsbankinn greindi frá því í gær að opnunartími útibúanna verði nú frá 12:00 til 15:00. Í sumum tilfellum styttir það opnunartíma um fjórar klukkustundir. 

Í bréfi Gests Þórs Kristjánssonar, oddivita nýja meirihlutans, til Landsbankans er bent á að útibúið í Þorlákshöfn veiti bæði banka- og póstþjónustu. Aðgerð bankans sé í algerri mótsögn við fólksfjölgun sem verið hefur á svæðinu síðastliðin ár sem flokkurinn lýsir sem gríðarlegri. Fyrirséð sé að sú fjölgun haldi áfram.

„Þá hefur D-listinn kynnt áætlanir um kröftuga uppbyggingu atvinnulífs í Þorlákshöfn og í dreifbýli Ölfus og skýtur skerðing þjónustunnar því skökku við, nú þegar atvinna og fjölgun íbúa á landsbyggðinni er einmitt í sókn,“ segir í bréfinu

Nýi meirihlutinn ætlar að mælast til þess að Landsbankinn endurskoði ákvörðun sína og leiti frekar leiða til að halda þjónustustiginu uppi. 

„Í þeim efnum, mun D listinn beita sér fyrir því að aðilar sveitastjórnar og bankans setjist niður til samtals um leið og nýr meirihluti fær formlegt umboð sitt í júní næstkomandi,“ segir í bréfi Gests Þórs.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×