Erlent

Harðari refsing fyrir brot framin í fátækrahverfum

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Áætlun ríkisstjórnarinnar verður kynnt á fimmtudag.
Áætlun ríkisstjórnarinnar verður kynnt á fimmtudag. Vísir/Getty
Með það fyrir augum að tryggja öryggi íbúa sem búa í fátækrahverfum áformar danska ríkisstjórnin að taka upp tvöfalt þyngri refsingar fyrir þá sem brjóta af sér á slíkum svæðum. Ríkisstjórnin kynnir áætlun sína um aðgerðir til að draga úr glæpatíðni á fimmtudag. Danska ríkisútvarpið og Berlingske greina frá þessu.

Auknar valdheimildir í fátækrahverfum

Auk þess sem breytingar eru boðaðar í refsilöggjöf er í áætluninni gert ráð fyrir því að efla löggæslu til muna í fátækrahverfum. Talað er um svokölluð „gettó“ í áætluninni en það eru hverfi sem einkennast af félagslegum vandamálum, glæpaklíkum og fátækt. Á þessu ári mun lögreglan ráðast í 25 umfangsmiklar aðgerðir.

Søren Pape Poulsen, dómsmálaráðherra í Danmörku, segir að það sé mikilvægt að tryggja öryggi íbúa alls staðar á landinu. Í Danmörku eigi ekki að vera hverfi sem séu merkjanlega hættulegri fyrir fólk en önnur.

Ekki allir jafnir gagnvart lögunum

Margir hafa gagnrýnt harðlega áætlun ríkisstjórnarinnar og fara þar fremst í flokki talsmenn hverfasamtaka í Árósum og Kaupmannahöfn sem segja útspilið mismuna fólki. Ekki séu allir jafnir fyrir lögunum, gangi áætlunin eftir.

Muhammad Aslam, sem fer fyrir hverfissamtökum í Nørrebro, segir að útspilið sé árás á umrædd hverfi. Með þessu sé greinilega verið að skapa aðstæður fyrir aukna stéttaskiptingu í þjóðfélaginu með því að skipa fólki í a-deild og b-deild, er haft eftir Aslam.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×