Filippus Spánarkonungur fékk óblíðar móttökur í fyrstu opinberu heimsókn sinni til Katalóníu síðan gengið var til sjálfstæðiskosninga í héraðinu í október síðastliðnum. Kosningarnar voru barðar niður af nokkurri hörku af stjórnvöldum í Madríd og niðurstöður þeirra hunsaðar.
Katalónskum mótmælendum var því nokkuð heitt í hamsi um helgina þegar Filippus heimsótti tæknihátíð í héraðinu. Lögreglan þurfti að halda aftur af hundruð mótmælenda og háttsettir katalónskir embættismenn neituðu að mæta á formlega móttöku, konunginum til heiðurs. Tölur um handtökur og slys á fólki eru á reiki en talið er að þær hlaupi á nokkrum tugum.
Þrátt fyrir hita í mótmælendum hefur stuðningur Katalóna við sjálfstæði minnkað umtalsvert frá kosningunum í október. Ef marka má nýlegar kannannir styðja um 40,8% Katalóna sjálfstæði en 53,9% eru því mótfallnir.

