Erlent

Ástvinir skipverja ekki af baki dottnir

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Kafbáturinn var orðinn 34 ára gamall og sögðu margir hann vera í slæmu ástandi.
Kafbáturinn var orðinn 34 ára gamall og sögðu margir hann vera í slæmu ástandi. Vísir/EPA
Aðstandendur 44 skipverja á argentínska kafbátnum sem hvarf á síðasta ári hafa hafið hópsöfnun til að halda megi leitinni áfram.

Argentínski sjóherinn hætti formlegri leit að kafbátnum í desember síðastliðnum, um tveimur vikum eftir að hann hvarf sporlaust.

Þrátt fyrir ítarlega, alþjóðlega leit sem engum árangri skilaði hafa aðstandendur skipverjanna ekki gefið upp alla von. Þeir kalla nú eftir fjárframlögum almennings og biðla til fólks að leggja sér lið, hvort sem það er með mannskap eða tæknibúnaði sem komið gæti að notum.

Hvorki tangur né tetur hefur sést af kafbátnum og óttast er að allir innanborðs séu látnir. Skipverjar höfðu ekki súrefnisbirgðir fyrir nema 10 daga köfun og ætla má að þær hafi klárast um miðjan desembermánuð.

„Við viljum halda leitinni áfram, við munum ekki hætta. Við erum í sannleiksleit og þú getur aðstoðað okkur. Með litlu framlagi getum við tekið stórt skref. Hjálpaðu okkur,“ segir í yfirlýsingu frá aðstandendum sem mótmæltu ákvörðun sjóhersins um að hætta leitinni hástöfum.

Margir voru ósáttir við skýringar hersins en aðrir sögðu ekki geta syrgt ástvini sína nema líkin þeirra fyndust.

Argentínsk stjórnvöld eru reiðubúin að borga um 500 milljónir íslenskra króna fyrir upplýsingar sem gætu leitt til þess að kafbáturinn finnist.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×