Innlent

Interpol gefur út handtökuskipun á hendur Íslendingi

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Ari Rúnarsson er annar tveggja Íslendinga sem lýst er eftir á vef Interpol.
Ari Rúnarsson er annar tveggja Íslendinga sem lýst er eftir á vef Interpol. Skjáskot/Interpol
Alþjóðalögreglan Interpol lýsir eftir og hefur gefið út handtökuskipun á hendur Ara Rúnarssyni, Íslendingi á 28. aldursári, sem sætir ákæru fyrir vopnað rán og líkamsárás á Akureyri í október í fyrra. Fréttablaðið greinir frá en Ari mun samkvæmt heimildum blaðsins hafa farið úr landi áður en tókst að birta honum ákæruna.

Í ákærunni á hendur Ara er honum gefið að sök að hafa ásamt öðrum slegið mann með flösku í höfuðið, kýlt hann ítrekað í andlitið og sparkað í hann við Nætursöluna við Strandgötu. Ari og félagi hans eru sakaðir um líflátshótanir á staðnum sem meðal annars fólst í því að hann yrði grafinn í holu úti í sveit. Eiga þeir að hafa tekið úlpuna af manninum sem þeir réðust á og reiðufé.

Á vef Interpol segir að Ari sé eftirlýstur vegna vopnaðs ráns (armed robbery) og líkamsárásar. Hann á brotasögu að baki.

Ari er annar tveggja Íslendinga sem lýst er eftir á vef Interpol. Hinn er Róbert Tómasson en hans hefur verið leitað í yfir áratug eins og Vísir hefur áður fjallað um.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×