Innlent

Erfðaefni sem fer ekki til barns hefur samt mikil áhrif á örlög þess

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Ný rannsókn Íslenskrar erfðagreiningar leiðir í ljós að erfðaefni foreldris sem fer ekki til barns við getnað hefur engur að síður mikil áhrif á örlög þess. Nefna vísindamenn þetta erfðauppeldi.

Við getnað hlýtur barn helming erfðaefnis föður og helming erfðaefnis móður. Í rannsókn, sem Íslensk erfðagreining birti í dag í tímaritinu Science, var leitað svara við því hvort erfðabreytingar í þeim helming erfðaefnis foreldranna, sem ekki fer til barns, hafi áhrif á örlög þess. Niðurstaðan er sú að erfðabreytingar foreldra sem ekki skila sér til barns hafa áhrif, ekki síst á menntun barnsins.

„Við fundum aðferð til þess að meta og mæla áhrif þess umhverfis sem foreldrarnir eru á örlög barnanna. Það sem við skoðuðum fyrst og fremst var menntun sem börnin fá. Við sýndum fram á að sá hluti erfðamengis foreldra sem fer ekki yfir til barnanna hefur áhrif á hversu mikla menntun börnin fá sem er um það bil 30 prósent af þeim áhrifum sem aftur hinn helmingurinn, sem fer til barnanna, leggur af mörkum,“ segir Kári Stefánsson forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar. 

Í rannsókninni var notað erfðaefni þúsunda Íslendinga sem fæddust milli 1940 og 1983. Börn eru svo háð foreldrum sínum að umhverfi uppvaxtarins hefur mikil áhrif á þau og það mótast einmitt af erfðaefni foreldranna. Vísindamenn nefna þetta erfðauppeldi.

„Við fæðumst með ákveðna tilhneigingu, við fæðumst með ákveðna getu en gáfur okkar eru ekki bara afleiðing af erfðum heldur líka því umhverfi sem foreldrarnir veita. Sem þýðir að við erum ekki mótuð heldur erum við mótanleg. Það er gaman að vita til þess að þú getur haft áhrif á alls konar eiginleika barna þinna með því að ala þau upp vel, hlúa vel að þeim og veita þeim það umhverfi sem þau eiga skilið,“ segir Kári. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×