Valur er 2-1 undir í einvíginu gegn Haukum í úrslitum Domino’s-deildar kvenna í körfubolta. Valskonur eru á stærsta sviðinu í fyrsta sinn en sagan er með Haukakonum í liði.
Frá því að úrslitakeppnin var tekin upp í kvennaflokki 1993 hafa Haukar sex sinnum komist í úrslit um Íslandsmeistaratitilinn og þrisvar sinnum náð í þann stóra.
Helena Sverrisdóttir hefur stjórnað ferðinni í úrslitaeinvíginu en hún hefur verið með þrefalda tvennu í öllum þremur leikjunum. Aalyah Whiteside hefur dregið Valsvagninn í úrslitaeinvíginu en hún er með 27 stig að meðaltali í leik.
Haukar voru með frábæra 48% þriggja stiga nýtingu í síðasta leik og unnu frákastabaráttuna 43-26. Engu breytti þótt liðið fengi aðeins sex stig af bekknum.
Leikur Vals og Hauka hefst klukkan 18.00 á Hlíðarenda í kvöld.
Fram í lykilstöðu

Valur vann fyrsta leikinn í úrslitaeinvígi liðanna en Fram hefur unnið síðustu tvo og er í lykilstöðu.
Fram tryggði sér sigur í öðrum leiknum með því að vinna síðustu níu mínúturnar 7-1. Í þriðja leiknum snerist dæmið við. Þá byrjuðu Safamýrarstúlkur frábærlega og lögðu þar grunninn að sigrinum.
Valskonur söknuðu framlags frá Diönu Satkauskaite í síðasta leik en hún hefur glímt við meiðsli, líkt og Anna Úrsúla Guðmundsdóttir sem hefur ekki getað beitt sér að fullu í síðustu tveimur leikjum og munar um minna.
Ragnheiður Júlíusdóttir hefur verið í aðalhlutverki í sóknarleik Fram en skyttan öfluga er með 22 mörk í úrslitaeinvíginu, eða 7,3 mörk að meðaltali í leik. Hún er markahæst í úrslitunum.
Leikur Fram og Vals hefst klukkan 20.00 í Safamýrinni í kvöld.