Þjálfaraskiptin voru tilkynnt í byrjun þessarar viku í kjölfar þess að Íslandsmeistaramótinu í 50 metra laug lauk.
Skilja mátti orð Jacky í samtali við fjölmiðla á þann hátt að hann hefði verði rekinn úr starfi án teljandi ástæðu og að það hafi komið eins og þruma úr heiðskíru lofti.
Vildum taka nýja stefnu
Ásgeir Ásgeirsson, stjórnarmaður hjá Ægi, segir það ekki alls kostar rétt að hann hafi verið rekinn án þess að ástæða liggi þar að baki.Ásgeir segir að ákveðið hafi verið að fara í skipulagsbreytingar hjá félaginu og sú ákvörðun tekin að yfirþjálfarinn sinni fleiri störfum en einungis afrekshópi félagsins. Því hafi verið heillavænlegast að mati stjórnar að skipta um mann í brúnni.
„Það var ákveðið að skipta um stefnu hjá félaginu, það er að yfirþjálfari Ægis myndi sinna þjálfun allra sem æfa hjá félaginu, en ekki bara afrekshluta félagsins. Okkar hugmyndir voru þær að ráða annan mann í starf yfirþjálfara sem myndi byggja grasrót félagsins upp frá grunni og starfa á breiðari grundvelli en Jacky hefur gert,“ segir Ásgeir og bætti við:
„Við höfum þar að auki þær hugmyndir að fara í samstarf við fleiri félög um sameinaðan afrekshóp sem kæmi til greina að Jacky myndi sjá um að þjálfa,“ segir Ásgeir í samtali við Fréttablaðið.
„Jacky var sagt upp störfum í mars og á sama tíma samið um það að hann myndi starfa af jafn miklum heilindum og hann hafði ávallt gert út yfirstandandi sundár. Jacky myndi sem sagt starfa út keppnistímabilið, hætta síðan störfum í sumar og nýr maður tæki þá við starfi hans. Það kom okkur að óvörum þegar Jacky tilkynnti afmörkuðum hópi sundmanna Ægis um ákvörðun okkar.“
Ánægð með störf hans
Mikil ánægja ríkir hjá Ægi með störf Jacky en margir af fremstu sundköppum Íslands æfðu hjá honum.„Það verður að koma fram að við höfum verið afskaplega ánægð með störf Jacky hjá Ægi. Hann hefur verið við störf hjá okkur í rúm tíu ár og það gefur augaleið þegar tekið er mið af þeim langa starfstíma að við höfum verið ánægð með hans störf. Jacky hefur til að mynda komið að þjálfun Eyglóar Óskar Gústafsdóttur, Jakobs Jóhanns Sveinssonar, Antons Sveins McKee og Söruh Blake Bateman og aðstoðað þau við að komast í fremstu röð,“ sagði Ásgeir um tíma Jacky hjá Ægi.
„Ég trúi því og treysti að Jacky muni vinna af jafn mikilli fagmennsku og hann hefur gert undanfarin tíu ár. Það er mikið í húfi fyrir sundfólkið okkar og til að mynda eru margir sem stefna að því að ná lágmarki fyrir Evrópumeistaramótið. Við göngum út frá því að Jacky starfi hjá okkur fram á sumarið og geri það með miklum sóma. Það kemur svo í ljós í framhaldinu hvort þau áform sem við höfum haft um að mynda sameinaðan afrekshóp undir handleiðslu Jacky geti orðið að veruleika,“ sagði Ásgeir að lokum.