Fjórar lögreglubifreiðar skemmdust er lögregla veitti 17 ára ökumanni eftirför í austurborginni laust eftir klukkan 19 í kvöld. Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild til aðhlynningar, að því er fram kemur í tilkynningu frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.
Upphaf málsins má rekja til þess að lögreglan hugðist stöðva för ökumanns á númerslausri bifreið á Víkurvegi í Grafarvogi um klukkan 19. Sá sinnti ekki stöðvunarmerkjum lögreglu og ók á brott á miklum hraða.
Lögregla fylgdi manninum eftir og stöðvaði hann að lokum í Mjóddinni þar sem lögreglubifreiðum var ekið í veg fyrir bíl hans. Ökumaðurinn, sem er 17 ára eins og áður sagði, var einn í bílnum og fluttur á slysadeild til aðhlynningar. Meiðsl hans eru talin minniháttar og bíður hans nú yfirheyrsla hjá lögreglu.
Þá eru tvær lögreglubifreiðanna óökuhæfar eftir eftirförina og sama á við um bíl piltsins.

