Íslenski boltinn

Teppið ekki tilbúið í Árbænum │Leikurinn við Val verður í Egilshöll

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Heimavöllur Fylkis er hægt og rólega að taka á sig rétta mynd
Heimavöllur Fylkis er hægt og rólega að taka á sig rétta mynd Mynd/fylkir
Fylkir mun ekki ná að taka á móti Íslandsmeisturum Vals á heimavelli sínum í Árbænum heldur verður leikurinn leikinn í Egilshöllinni.

Vísir greindi frá því í byrjun vikunnar að byrjað væri að leggja gervigras á Floridanavöllinn í Árbænum. Ljóst var að það yrði erfitt að ná að gera völlinn tilbúinn fyrir leikinn sem fer fram á mánudagskvöld, en þó var stefnan á að spila hann í Lautinni.

„Þrátt fyrir að framkvæmdirnar gangi vel næst því miður ekki að klára allt fyrir mánudaginn en gert er ráð fyrir að allt sem tengist vellinum sjálfum klárist í næstu viku. Eins og sést á meðfylgjandi mynd er verkið langt komið og fara næstu dagar í að setja línur og innfyllingu í völlinn. Félagið reyndi að fresta leiknum en vegna þátttöku Vals í Evrópukeppninni tókst ekki að finna nýjan tíma fyrir leikinn,“ sagði Hörður Guðjónsson, framkvæmdarstjóri Fylkis, í tilkynningu sem félagið setti á Facebook síðu sína.

Fylkir er í fallsæti í Pepsi deildinni og hefur tapað síðustu fimm leikjum sínum. Þeir hafa fengið á sig fimm mörk í síðustu tveimur leikjum og ekkert lið í deildinni hefur fengið á sig eins mörg mörk.

Fylkir og Valur mætast á mánudagskvöld klukkan 19:15 í Egilshöll og verður leikurinn í beinni textalýsingu á Vísi. Næsti heimaleikur Fylkis að honum loknum verður 12. ágúst gegn Stjörnunni og mun sá leikur mögulega verða spilaður á nýju teppi í Árbænum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×