Tillögur hópsins voru kynntar ríkisstjórninni í morgun og á blaðamannafundi fyrr í dag. Verkefni hópsins var skila ráðherra tillögum um aðgerðir gegn kynferðislegri áreitni og ofbeldishegðun í íþrótta- og æskulýðsstarfi.
Íþróttakonur á Íslandi sendu frá sér yfirlýsingu í tengslum við MeToo umræðuna í janúar síðastliðnum og fylgdi með henni undirskriftalisti og nafnlausar reynslusögur. Undir yfirlýsinguna skrifuðu 462 íþróttakonur úr mörgum íþróttagreinum. 62 frásagnir kvenna úr heimi íþróttanna af valdaójafnvægi, kynferðislegri áreitni og kynferðislegu og líkamlegu ofbeldi fylgdu yfirlýsingunni sem bar yfirskriftina Jöfnum leikinn.
Óháður aðili verði til staðar sem geti tekið við ábendingum um ofbeldi og óæskilega hegðun
Meðal þess sem starfshópurinn leggur til er að til staðar sé óháður aðili sem geti tekið við símtölum, tilkynningum eða öðrum samskiptum um ofbeldi og aðra óæskilega hegðun og komið þeim í réttan farveg, að skýrir og samhæfðir verkferlar og viðbragðsáætlanir séu til staðar hjá félögum og samtökum í íþrótta- og æskulýðsstarfi og að unnið sé markvisst í jafnréttismálum á vegum íþróttahreyfingarinnar.Þá er einnig lögð áhersla á það að íþróttahreyfingin setji sér siðareglur og hegðunarviðmið, kanni bakgrunn þeirra sem koma að íþróttastarfi og kynni fyrir þeim þær reglur sem gilda í starfinu. Sé vafi til staðar vegna einstaklings sem fyrirhugað er að ráða eða fá til starfa sem sjálfboðaliða er mikilvægt að horfa fyrst og fremst til hagsmuna iðkenda.
Upptöku frá blaðamannafundinum þar sem tillögur starfshópsins voru kynntar má sjá hér fyrir neðan
Þá segir einnig að tillögurnar snerti ýmsa aðila er koma að íþrótta- og æskulýðsstarfi, svo sem íþróttahreyfinguna, æskulýðsfélögin, sveitarfélög og stjórnvöld.
Að mati starfshópsins er mikilvægt að þessir aðilar séu samtaka um aðgerðir á þessu sviði. Næstu skref verði að kynna tillögur þessar betur fyrir þeim er málið varðar, svo sem forsvarsmönnum íþróttahreyfingarinnar og á vettvangi sveitarfélaganna.
Starfshópinn skipuðu:
Auður Inga Þorsteinsdóttir, tilnefnd af UMFÍ
Ása Ólafsdóttir, tilnefnd af ÍSÍ
Elísabet Pétursdóttir, tilnefnd af mennta- og menningarmálaráðuneyti
Guðni Olgeirsson, tilnefndur af mennta- og menningarmálaráðuneyti
Hafdís Inga Hinriksdóttir, tilnefnd af hópi íþróttakvenna
Heiðrún Janusardóttir, tilnefnd af Sambandi íslenskra sveitarfélaga
Jóna Pálsdóttir tilnefnd af mennta- og menningarmálaráðuneyti
Óskar Þór Ármannsson formaður, tilnefndur af mennta- og menningarmálaráðuneyti
Valgerður Þórunn Bjarnadóttir, tilnefnd af mennta- og menningarmálaráðuneyti