Menning

Ætlum að spila okkar uppáhalds standarda

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
Sölvi hlakkar til að troða upp með vinum sínum. „Þetta er mitt draumaband,“ segir hann.
Sölvi hlakkar til að troða upp með vinum sínum. „Þetta er mitt draumaband,“ segir hann. Fréttablaðið/Sigtryggur Ari
„Það sem er skemmtilegt við þessi gömlu lög er að alltaf er hægt að gera eitthvað nýtt við þau. Svo eru þau líka falleg og góð svo það þarf ekki endilega að gera eitthvað mikið,“ segir Sölvi Kolbeinsson saxófónleikari um efni sem hann ætlar að flytja í Norræna húsinu annað kvöld klukkan 20, ásamt félögum sínum í nýstofnuðum Kvartett Sölva Kolbeins. Þar er á ferðinni tónlist sem Sölvi segir hafa verið hluta af efnisskrá þekktra djasstónlistarmanna. „Við ætlum að spila okkar uppáhalds standarda með okkar hætti. Þetta eru ýmist lög úr bandarískum söngleikjum frá 1930-1958 eða lög eftir menn eins eins og Duke Ellington, Thelonious Monk og Miles Davis.“

Í kvartettinum eru, auk Sölva, hinn enski Mark Pringle sem spilar á píanó, hinn þýski Felix Henkelhausen, sem spilar á bassa, og hinn íslenski Magnús Trygvason Eliassen sem er á trommunum.

Sölvi kveðst hafa kynnst píanistanum Mark og bassaleikaranum Felix í skólanum Jazz-Institut Berlin haustið 2015. Síðan hafi þeir unnið mikið saman í fjölbreyttum verkefnum. „Við Felix spilum saman í hljómsveitinni Volcano Bjorn sem hefur haldið fjölda tónleika í Þýskalandi auk þess að koma fram á Jazzhátíð Reykjavíkur sumarið 2017 og við Mark höfum komið fram sem dúó. Ég hef líka komið fram með kvintett Mark Pringle og kvintett Felix Henkelhausen í Berlín og allir spiluðum við saman í Finnlandi með kvart­ett enska bassaleikarans Hayden Prosser. Svo höfum við Magnús líka unnið mikið saman síðustu ár, byrjuðum að spila sem dúó árið 2015 og höfum meðal annars haldið fjölda tónleika í Mengi.“

Sölvi fer aftur til Berlínar í september. „Ég á enn eftir eitt ár í skólanum og svo hugsa ég að ég verði áfram þar ytra. Berlín er spennandi borg. Þar er slatti að gera og ég er kominn ágætlega inn í senuna.

Ætlar hann þá að tæla Magnús með sér til að kvartettinn geti haldið áfram að djassa þar úti?

„Nei, en hann spilar nú þar reglulega. ADHD er í Þýskalandi á hverju ári og ég hef hitt hann þar þó nokkrum sinnum á síðustu árum,“ svarar hann. „Þetta er fyrsti konsert nýja kvartettsins en ég vona að við höldum samstarfinu áfram.“

En skyldi Sölvi hafa alist upp við djasstónlist í foreldrahúsum?

„Nei, reyndar ekki. Ég var alltaf í klassík, byrjaði á saxófóninum átta ára og fókuseraði á klassíkina þar til ég var svona 16 ára, þá var ég byrjaður í FÍH og smám saman kom áhuginn á djassi. Ég komst í svo skemmtilegt samspil þegar ég var svona 17 til 18 ára með rosa góðum tónlistarmönnum, miklu betri en ég. Þar byrjaði djassáhuginn að grassera.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×