Berglind Björg Þorvaldsdóttir og samherjar hennar hjá Breiðabliki mæta HK/Víkingi í nágrannaslag í þriðju umferð Pepsi-deildar kvenna í knattspyrnu í Kórnum í Kópavogi í kvöld. Berglind Björg hefur, líkt og Breiðabliksliðið allt, farið vel af stað í deildinni á yfirstandandi leiktíð.
Nýliðar HK/Víkings hafa hins vegar sýnt klærnar í upphafi deildarinnar, en liðið vann FH í fyrstu umferðinni og tapaði svo fyrir ríkjandi Íslandsmeisturum, Þór/KA, eftir hörkuleik í annarri umferðinni.
Breiðablik hefur aftur á móti haft betur í fyrstu tveimur leikjum sínum í deildinni, en liðið hefur skorað tíu mörk í öruggum sigrum. Berglind Björg hefur skorað fjögur af þessum tíu mörkum, en hún er næstmarkahæsti leikmaður deildarinnar á eftir Söndru Maríu Jessen, framherja Þórs/KA sem hefur skorað fimm mörk í þremur leikjum.
„Það er mikið sjálfstraust í liðinu eftir góða byrjun í deildinni í sumar. Við byrjuðum mótið af miklum krafti með góðum sigri á Stjörnunni og svo fylgdi sannfærandi sigur á Grindavík þar í kjölfarið. Við ætlum að halda þessu áfram og stefnan er sett á þrjú stig í leiknum gegn HK/Víkingi,“ sagði Berglind Björg í samtali við Fréttablaðið.
„Við misstum frábæra leikmenn eftir síðasta tímabil, en þeir leikmenn sem eftir eru hafa fengið aukna ábyrgð í staðinn. Það eru margir leikmenn sem hafa gripið tækifærið og staðið sig mjög vel. Við fylltum líka í skörðin með nýjum og öflugum leikmönnum. Þetta hefur leitt til þess að við söknum ekki þeirra leikmanna sem fóru og gæði liðsins eru á pari við liðið í fyrra að mínu mati. Við notuðum veturinn vel í að byggja upp nýtt lið. Leikmannahópurinn hefur smollið vel saman og liðsandinn í hópnum er alveg frábær,“ sagði hún um stemminguna í Breiðabliki.
Breiðablik stefnir að því að komast upp að hlið Þórs/KA, sem trónir á toppi deildarinnar með níu stig, með sigri gegn HK/Víkingi.
Þá getur Berglind Björg jafnað eða skotist upp fyrir Söndru Maríu á listanum yfir markahæstu leikmenn deildarinnar með marki eða mörkum í leiknum.
„Það er alltaf jafn góð tilfinning að skora og það eykur sjálfsöryggið að sjá boltann í netinu. Það var gott að brjóta ísinn strax í fyrsta leik og það hefur gengið vel að koma boltanum í markið í upphafi leiktíðarinnar. Vonandi næ ég að halda áfram á þessari braut og halda áfram að hjálpa liðinu með því að skora,“ sagði Berglind Björg um markaskorun sína.
Erum með mikið sjálfstraust
Hjörvar Ólafsson skrifar

Mest lesið



Afturelding mætir Val í undanúrslitum
Handbolti


„Erum á uppleið og ætlum að halda áfram“
Körfubolti


Íslendingalið Birmingham upp í B-deild
Enski boltinn



Sjáðu þrennu Karólínu Leu
Fótbolti