Forseti bæjarstjórnar Reykjanesbæjar hefur litla trú á því, í ljósi sögunnar, að kísilmálmverksmiðjan í Helguvík fari aftur í rekstur þrátt fyrir að nýtt rekstrarfélag ætli að leggja milljarða í úrbætur. Nýtt rekstrarfélag hefur boðað til íbúafundar i kvöld um framtíð verksmiðjunnar.
Undirbúningur til þess að standsetja og koma starfsemi af stað í kísilmálsmverksmiðjunni í Helguvík er í fullum gangi en félagið Stakksberg, sem stofnað var um reksturinn áformar að leggja í 4,5 milljarða króna fjárfestingu í útbætur á verksmiðjunni.
Kísilmálmverksmiðjan í Helguvík var áður rekin undir nafni United Silicon, eða þar til Arion banki yfirtók reksturinn og stofnaði félag um reksturinn, en í tilkynningu á að reyna miða úrbætur að því að gera verksmiðjuna fullbúna til framleiðslu, koma til móts við athugasemdir íbúa í Reykjanesbæ og uppfylla skilyrði Umhverfisstofnunar fyrir starfsemi verksmiðjunnar.
Jóhann Friðrik Friðriksson, forseti bæjarstjórnar Reykjanesbæjar segir að bæjarstjórn ætli sér að tryggja aðkomu bæjarbúa að þeirri ákvörðun um hvort kísilmálmverksmiðjan fari í rekstur.
„Þetta er gríðarlega stór ákvörðunartaka ef að það verður niðurstaðan að verksmiðjan fer aftur í gang enda saga hennar fordæmalaus og sérstök, ekki bara fyrir okkur íbúa Reykjanesbæjar heldur á Íslandi,“ sagði Jóhann Friðrik Friðriksson, forseti bæjarstjórnar Reykjanesbæjar í hádegisfréttum Bylgjunnar í dag.
Tillaga að matsáætlun fyrir nýtt umhverfismat verksmiðjunnar var birta á vef skipulagsstofnunnar í gær og hafa íbúar frest til 5. desember til þess að skila inn athugasemdum. Eins og fram kom fyrr á árinu, þegar farið var að skoða rekstur United Silicon, kom í ljós að byggingar á lóð verksmiðjunnar reyndust ekki í samræmi við deiliskipulag Reykjanesbæjar. Sumar þeirra eru of háar miðað við teikningar og sumar utan lóðar.
„Nú er bærinn að vinna í því að leita leiða og sjá hvað hægt er að gera og þannig er staðan. Það tekur sinn tíma að fá niðurstöðu í það,“ segir Jóhann Friðrik.
Þrátt fyrir fyrirætlanir og fögur fyrirheit nýs rekstrarfélags hefur forseti bæjarstjórnar litla trú á því að kísilmálmverksmiðjan í Helguvík fari aftur í rekstur.
„Ég er auðvitað efins um það bara í ljósi sögunnar. það er auðvitað þeirra að fara í gegnum ferlið og við munum fylgjast grannt með því,“ segir Jóhann Friðrik.
Nýja rekstrarfélagið, Stakksberg ehf. hefur boðað til íbúafundar í Hljómahöllinni í Reykjanesbæ í kvöld vegna kísilmálmverksmiðjunnar og hefst fundurinn klukkan átta.
