Alfreð Finnbogason mun líklega ekki spila með Augsburg um helgina þegar keppni í þýsku 1. deildinni hefst á nýjan leik eftir vetrarhlé. Alfreð er veikur og gat ekki æft með liðinu í gær.
Manuel Baum, þjálfari Augsburg, sagði þó við þýska fjölmiðla í gær að hann vonaðist til að Alfreð gæti verið á bekknum á laugardag er Augsburg mætir Hamburg.
Fyrir utan veikindi hefur Alfreð verið að glíma við meiðsli í hásin síðan í leik Augsburg gegn Freiburg í síðasta mánuði, er Alfreð skoraði þrennu.
Alfreð er þriðji markahæsti leikmaður þýsku 1. deildarinnar með ellefu mörk. Augsburg er í níunda sæti deildarinnar með 24 stig.

