Innlent

Sængurkonur gætu þurft að liggja á setustofum spítalans

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Sængurkonur og nýburar sem útskrifuðust af Landspítalanum í þessari viku hafa þurft að koma í endurinnlögn til að fá þjónustu sem annars hefði verið hægt að veita í heimaþjónustu. Þá er fyrirséð að sængurkonur gætu þurft að liggja á göngum og setustofum spítalans þar sem deildin er að fyllast.

Viðbragðsáætlun Landspítala og Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins vegna skertrar þjónustu við sængurkonur og nýbura var virkjuð í morgun. Ljósmæður sem sinnt hafa heimaþjónustu samkvæmt samningi við Sjúkratryggingar Íslands lögðu niður störf á mánudaginn þar sem samningur hefur ekki verið endurnýjaður. Þetta hefur skapað mikinn vanda á Landspítalanum að sögn Sigríðar Gunnarsdóttur, framkvæmdastjóra hjúkrunar, en hún segir það að hafa viðbragðsáætlun virka ekki duga til lengdar.

„Miðað við þær konur sem eru í fæðingu, að deildin á eftir að fyllast á næstu klukkustundum og þá væntanlega sjáum við yfirlagnir á deildinni, gangalagnir,“ segir Sigríður. Það er nokkuð sem ekki hefur sést áður á mæðra- og sængurkvennadeild að sögn Sigríðar.

„Það þýðir að við erum með fleiri konur inni liggjandi, og börn inni á deildinni heldur en að eru rými fyrir þannig að við þurfum væntanlega að nota setustofur og önnur rými til þess að tryggja þeim pláss.“ Kveðst hún þó vona að ekki komi til þessa, en eins og staðan var þegar fréttastofa ræddi við Sigríði síðdegis, sé það líklegra en ekki.

„En hins vegar náttúrlega er líka að gerast það sem að við höfðum séð fyrir að það er hluti kvennanna og barnanna sem að ekki er hægt að útskrifa vegna þess að heimaþjónustan er ekki til staðar,“ segir Sigríður.

Þá hefur nokkuð borið á því að konur sem hafi verið útskrifaðar hafi þurft að snúa aftur til að þiggja þjónustu sem annars hefði verið hægt að sinna í heimahúsum. Þess má geta að fundur stendur nú yfir milli fulltrúa ljósmæðra í heimaþjónustu og Sjúkratrygginga Íslands vegna málsins.


Tengdar fréttir

Áætlun vegna ljósmæðradeilu

Landspítalinn hefur virkjað sérstaka viðbragðs­áætlun vegna ljósmæðra sem nú sinna ekki heimaþjónustu við konur og nýbura vegna kjaradeilu við ríkið.

Ljósmæður höfnuðu samningsdrögum

Samningsdrög sem unnin voru af fulltrúum ljósmæðra og Sjúkratryggingafélags Íslands eru "algjörlega óásættanleg“ að mati ljósmæðra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×