Samkvæmt samningi íslenska ríkisins við lyfjaframleiðandann GlaxoSmithKline fá Íslendingar „eins fljótt og auðið er eftir að lýst hefur verið yfir heimsfaraldri“ 300 þúsund skammta af bóluefni gegn inflúensu.
„Samningur þessi byggir á sambærilegum samningi sem Danir hafa gert við GSK og gildir hann í fjögur ár með möguleika á framlengingu, mest 10 ár,“ segir í Farsóttafréttum.
Samningurinn, sem undirritaður var 10. september, er af gerð viðbragðsáætlana stjórnvalda vegna heimsfaraldurs inflúensu.
„Með samningnum er tryggt að Íslendingar fái bóluefni. Þar sem ekki verður hægt að hefja framleiðslu á bóluefninu fyrr en heimsfaraldri hefur verið lýst yfir, munu líða um fjórir til sex mánuðir frá upphafi faraldurs þar til bóluefnið fæst afhent.“
