Kolbeinn Sigþórsson spilaði meira en klukkutíma með varaliði Nantes um helgina og er greinilega á réttri leið í endurkomu sinni.
Kolbeinn hefur talað sjálfur um draum sinn um að vera með Íslandi á HM í Rússlandi í sumar og fyrsta skrefið í þá átt gæti komið í næsta verkefni landsliðsins.
Kolbeinn hefur ekki spilað með íslenska landsliðinu síðan í leik á móti Frakklandi í átta liða úrslitum Evrópumótsins sumarið 2016.
Hjörvar Hafliðason sagði frá því í Brennslunni á FM957 í morgun að það séu sögusagnir um að Kolbeinn verði með í landsliðshóp Íslands sem fer til Bandaríkjanna seinna í þessum mánuði og spilar vináttuleiki við Mexíkó og Perú.
Leikirnir fara fram 23. og 27. mars en Heimir Hallgrímsson, landsliðsþjálfari, tilkynnir hópinn sinn á föstudaginn.
Í umsögn um varaliðsleikinn hjá Nantes á vefsíðunni planete-fcnantes.com kemur fram að Kolbeinn hafi átt þátt í öðru marki Nantes en liðið vann þar 2-1 sigur á Changé.
Blaðamaður Planete FC Nantes sagði þó í umsögn sinni að Kolbeinni hafi augljóslega verið ryðgaður sem hafi verið skiljanlegt enda næstum tvö ár síðan hann lék síðast með aðalliði félagsins.
Vináttuleikirnir í Bandaríkjunum verða síðustu tveir leikir íslenska landsliðsins áður en Heimir velur lokahópinn sinn á HM. Þetta er því síðasta tækifæri leikmanna til að spila sig inn í HM-hópinn í leik með landsliðinu.
