Innlent

Sóttu hart að dómsmálaráðherra: „Er ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur að falla á fyrsta prófinu?“

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Sigríður Á. Andersen, dómsmálaráðherra, á fundi stjórnskipunar-og eftirlitsnefndar í gær þar sem hún svaraði fyrir embættisfærslur sínar við skipun dómara í Landsrétt. Hart var sótt að ráðherra við upphaf þingfundar í dag vegna málsins.
Sigríður Á. Andersen, dómsmálaráðherra, á fundi stjórnskipunar-og eftirlitsnefndar í gær þar sem hún svaraði fyrir embættisfærslur sínar við skipun dómara í Landsrétt. Hart var sótt að ráðherra við upphaf þingfundar í dag vegna málsins. vísir/eyþór

Þingmenn stjórnarandstöðunnar komu hver á fætur öðrum í pontu Alþingis við upphaf þingfundar í dag undir liðnum fundarstjórn forseta. Ræddu þeir allir hið svokallaða Landsréttarmál en eins og kunnugt er hefur mikill styr staðið um skipun Sigríðar Á. Andersen, dómsmálaráðherra, í embætti dómara við Landsrétt. Fyrir jól komst Hæstiréttur að þeirri niðurstöðu að ráðherrann hefði brotið lög við skipunina og dæmdi ríkið til að greiða tveimur umsækjendum miskabætur vegna málsins.

Jón Steindór Valdimarsson, þingmaður Viðreisnar, kom fyrstur í pontu og gagnrýndi ráðherra harðlega fyrir að upplýsa þingheim ekki um það að verulegar efasemdir væru á meðal embættismanna stjórnarráðsins um þá leið sem Sigríður fór við skipun dómaranna. Sagði Jón Steindór það forkastanleg vinnubrögð af hálfu ráðherrans. Þá sagði hann jafnframt málatilbúnað hennar varðandi ábyrgð sína og svo Alþingis við skipunina með nokkrum ólíkindum.

„Og hlýtur að vekja upp margar spurningar um upplýsingaskyldu ráðherra til þingsins. Hæstvirtur ráðherra hefur kosið að í málsvörn sinni að varpa allri ábyrgð á herðar þingsins í stað þess að axla þá ábyrgð sjálf sem henni ber,“ sagði Jón Steindór.

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata, sagði engin skrifleg gögn hafa komið til Alþingis sem bentu til þess að nokkur sérfræðingur hefði ráðlagt dómsmálaráðherra að fara þá leið sem hún síðan fór.

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata, var meðal þeirra sem gagnrýndi dómsmálaráðherra á þinginu í morgun. Vísir/Anton

Spurði hvort það hafi ekki kviknað á neinum viðvörunarbjöllum hjá ráðherra

„Það var sem sagt þannig að enginn ráðuneytisstarfsmaður, enginn embættismaður, enginn lögfræðingur eða sérfræðingur í stjórnsýslurétti var sammála mati hæstvirts dómsmálaráðherra að það stæðist stjórnsýslulög að handvelja dómaraefni án ítarlegrar rannsóknar og greinargóðs rökstuðnings. Og ef svo var, kviknuðu engar viðvörunarbjöllur hjá hæstvirtum dómsmálaráðherra? Hvers vegna lét hún okkur ekki vita af þessu?“ spurði Þórhildur Sunna og bætti við hvers vegna ekkert hefði verið skráð um það ef einhver af þeim sem ráðherrann leitaði ráða hjá var sammála hennar lagatúlkun.

„Eru þessi vinnubrögð boðleg?“ spurði Þórhildur Sunna.

Ágúst Ólafur Ágústsson, þingmaður Samfylkingarinnar, sagði að það hefði ekki legið fyrir þinginu eða fyrir kosningar að Sigríður hefði fengið fjölmargar ráðleggingar um að leið hennar við skipuna dómaranna væri ekki fær. Þá hefði heldur hvorki legið fyrir fyrir kosningar að ráðherrann hefði brotið lög samkvæmt Hæstarétti þar sem dómurinn féll eftir kosningar.

„Þetta mál er prófsteinn á endurreisn Íslands eftir hrunið. Erum við enn föst í fyrirhruns-hjólförunum þar sem frændhygli og gerræðisleg vinnubrögð ráðherra eru daglegt brauð eða erum við komin fram á veginn þar sem slík vinnubrögð líðast ekki og kalla á eðlilegar pólitískar afleiðingar? Er ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur að falla á sínu fyrsta prófi?“ sagði Ágúst Ólafur.

Birgir Ármannsson, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, varði samflokksmann sinn í umræðunni á þingi í dag.vísir/vilhelm

„Áskanir á hendur hæstvirtum dómsmálaráðherra eru að mínu mati fullkomlega tilhæfulausar“

Birgir Ármannsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sagði skipulagða uppákomu stjórnarandstöðunnar við upphaf þingfundar mjög sérkennilega, sérstaklega þar sem málið væri enn til meðferðar hjá stjórnskipunar-og eftirlitsnefndar eða það hefði hann haldið.

Hann sagði að margt mætti segja um málið sem ætti heima í lengri umræðu en benti á það að þó menn gætu haft mismunandi skoðanir á dómum Hæstaréttar þá væri auðvitað farið eftir dómsorðunum.

„Það er það sem skiptir máli. Í þessu tilviki var hafnað ógildingarkröfu, það var hafnað skaðabótakröfu en það var dæmd miskabótarkrafa sem verður auðvitað greidd. [...] En áskanir á hendur hæstvirtum dómsmálaráðherra eru að mínu mati fullkomlega tilhæfulausar og hafi menn fylgst með og hlustað á þær umræður sem áttu sér stað í stjórnskipunar-og eftirlitsnefnd í gær og skýringar ráðherra þá ættu menn að gæta orða sinna í þessari umræðu hér,“ sagði Birgir.

Umræðan um embættisfærslur dómsmálaráðherra undir liðnum fundarstjórn forseta tók rúman hálftíma og kvöddu fjölmargir þingmenn sér hljóðs, sumir oftar en einu sinni, þar á meðal Óli Björn Kárason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sem átti síðasta orðið.

Hann gagnrýndi þingflokk Viðreisnar sem var í ríkisstjórnarsamstarfi með Sjálfstæðisflokknum og Bjartri framtíð þegar skipað var í Landsrétt og sagði flokkinn hafa gert mun meira en að óska eftir því að það yrði hugað að jafnréttissjónarmiðum við skipunina.

 

„Þingflokksformaður Viðreisnar lýsti því yfir á opnum fundi [...] að þingflokkur Viðreisnar hefði hrakið dómsmálaráðherra til baka með listann með þeim skilaboðum að hann yrði ekki samþykktur og formaður Viðreisnar, þáverandi, ítrekar það að það verði samþykkt skipan í Landsrétt nema jafnræði verði milli kynja. En svo geta menn auðvitað í pólitískum hentugleika stundarinnar í dag hagað orðum sínum með öðrum hætti og neitað að kannast við það sem sagt var hér fyrir ári,“ sagði Óli Björn.

Umræðuna alla má nálgast hér.



Fréttin var uppfærð klukkan 11:50.


Tengdar fréttir

„Ég var mjög hugsi yfir þessu excel-skjali“

Sigríður Á. Andersen, dómsmálaráðherra, segir að það hafi aldrei hvarflað að sér að dómnefnd um hæfi umsækjenda um embætti dómara við Landsrétt myndi komast að þeirri niðurstöðu að akkúrat 15 einstaklingar væru hæfastir í þær 15 stöður sem skipa þurfti við dóminn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×