Bandaríska fjárfestingafélagið Yucaipa Companies seldi í gærkvöldi fjórðungshlut í Eimskip fyrir um 11 milljarða króna. Þetta kom fram í tilkynningu sem send var Kauphöll Íslands seint í gærkvöldi en ekki er vitað á þessari stundu hver er kaupandi bréfanna. Eignarhlutur Yucaipa taldi alls um 50,6 hluta og var hann seldur á 220 krónur á hlut.
Félagið var stærsti hluthafinn í Eimskip en það hafði eignast um 32 prósenta hlut í skipafélaginu árið 2009. Þremur árum síðar seldi það svo Lífeyrissjóði verslunarmanna sjö prósenta hlut.
Yucaipa tilkynnti undir lok síðasta árs að það hefði í hyggju að selja hlut sinn í Eimskip, þá annað hvort með beinum viðskiptum eða í útboði. „Allar ákvarðanir Yucaipa um sölu verða háðar aðstæðum á fjármálamörkuðum og í efnahagsumhverfinu almennt,“ sagði í tilkynningu félagsins á sínum tíma.
Gengi hlutabréfa í Eimskip er nú 201 króna en var rúmlega 270 krónur þegar Yucaipa greindi fyrst frá áhuga sínum á að selja fjórðungshlutinn. Hann var þá metinn á fjórtán milljarða króna.
