Fjölmiðlar víða um heim hafa undanfarinn sólarhring eða svo fjallað um fyrirhuguð kaup Icelandair Group á flugfélaginu WOW air. Tilkynnt var um kaupin í gær en þau áttu sér stuttan aðdraganda; viðræður hófust síðdegis á föstudag, fóru fram um helgina og lauk með fyrrgreindum kaupum.
Það þarf ekki að hafa mörg orð um þá gríðarlega fjölgun ferðamanna sem orðið hefur hér á landi undanfarin ár. Ferðaþjónustan er orðin stærsta atvinnugrein landsins en greinin er afar háð farþegaflugi hingað til lands þar sem það er ákveðið lykilatriði að ferðamaðurinn komist á áfangastað.
WOW air fór í jómfrúarflug sitt árið 2012 og hóf flug til Bandaríkjanna árið 2015 í samkeppni við Icelandair. Félagið vakti strax athygli fyrir hversu ódýr flug það bauð yfir Atlantshafið sem endurspeglast að einhverju leyti í umfjöllun erlendra fjölmiðla.
Þannig segir í fyrirsögn á vef Business Insider: „Flugfélagið sem var frægast fyrir að bjóða flug á 55 dollara frá Bandaríkjunum til Evrópu hefur verið keypt af sínum helsta keppinaut.“
Á ferðavef Condé Nast er þeirri spurning velt upp hvað verður um þessi ódýru flug:
„Icelandair kaupir WOW air (og breytir því hvernig við fljúgum til Íslands). En stærstu spurningunni er ósvarað: Hvað verður um þessi 99 dollara flug til Reykjavíkur?“
Á vef Bloomberg er kaupum Icelandair á sínum helsta keppinaut líkt við hjónaband og í frétt Washington Post er það dregið fram að bæði félögin hafi glímt við fjárhagserfiðleika undanfarin misseri.
Í frétt Forbes segir að veturinn hafi komið hjá öðru „norrænu“ flugfélagi. Er rifjað upp hversu mikill fjöldi evrópskra lággjaldaflugfélaga hefur horfið af markaði undanfarið, þar á meðal Monarch, Air Berlin og SkyWork.
„Icelandair, flaggskip Íslands í flugi, er almennt séð flugfélag sem veitir viðbótarþjónustu en félagið flýgur til 48 áfangastaða. Það hefur verið í rekstri síðan 1937 [...]. WOW air aftur á móti er talið vera hið klassíska lággjaldaflugfélag. Jafnvel eftir að tilkynnt var um kaupin í dag var WOW enn að auglýsa mjög ódýr flug aðra leið, til dæmis Chicago-Reykjavík á 99 dollara eða New York-Berlín á 159 dollara,“ segir á vef Forbes.
Fréttin hefur verið uppfærð.
