Fangar sem glíma við alvarleg andleg veikindi og geðsjúkdóma hafa ítrekað komið í umræðuna á undanförnum árum meðal annars vegna skorts á þjónustu við hópinn.
Páll segir að nú sé ástandið grafalvarlegt. Fangelsin hafI að undanförnu átt í vandræðum með að koma mönnum sem eru í bráðavanda inn á geðdeild Landspítalans.
„Menn sem verða alvarlega veikir skyndilega í afplánun. Það er skortur á rýmum þar og okkar menn eru augljóslega ekki í forgangsröðuninni framarlega þar,“ segir Páll.
Þetta sé erfitt ástand enda enginn starfandi geðlæknir í fangelsunum. „Stundum er þetta fólk sem þarf á slíkri þjónustu að halda allan sólarhringinn.“

„Ef við höldum mönnum inni vegna veikinda þá erum við að gera það,“ segir Páll.
Það er einn fangi í þessari stöðu í dag. „Þetta eru einn til þrír fjórir einstaklingur á ári sem eru í þessu ástandi,“ segir Páll.
Önnur ástæða þess að Fangelsismálastofnun treystir sér ekki til að hleypa þessum einstaklingum út í samfélagið er að þeir geta verið hættulegir. „Við berum líka samfélagslega ábyrgð hérna hjá stofnuninni.“
Páll segir að það sé búið að benda á þetta vandamál í mörg ár. Evrópunefnd gegn pyndingum beindi tilmælum til stjórnvalda í kjölfar heimsóknar sinnar til landsins árið 2013 og umboðsmaður Alþingis hefur lýst því viðhorfi að vistun geðveikra manna í fangelsum kunni að brjóta gegn ákvæðum mannréttindasáttmála Evrópu. Umboðsmaður er með málið til skoðunar og er sem stendur er í bréfaskriftum við dómsmálaráðuneytið og velferðráðuneytið.
„Það þarf að bregast við þessu. Pyndinganefndin mun koma aftur,“ segir Páll Winkel, fangelsismálastjóri.