Enski boltinn

Skoruðu minna hjá Mourinho en undir stjórn David Moyes

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jose Mourinho og David Moyes.
Jose Mourinho og David Moyes. Mynd/Samsett/Getty
Jose Mourinho er ekki að koma vel út tölfræði sinni sem knattspyrnustjóri Manchester United en portúgalski var látinn taka pokann sinn í dag eftir þrjátíu mánuði í starfi.

Sóknarleikur Manchester United hefur ekki heillað marga í stjóratíð Jose Mourinho og liðið skoraði bara 1,62 mörk í leik undir hans stjórn.

Það þýðir að leikmenn United skoruðu færri mörk að meðaltal fyrir Jose Mourinho en þeir gerðu undir stjórn David Moyes.





Pep Guardiola tók við liði Manchester City sama sumar og Mourinho tók við Manchester United. Það er mikill munur á útkomunni hjá þessum tveimur nágrönnum síðan þá.

Manchester City liðið hefur þannig skorað 83 fleiri mörk í þeim 93 leikjum sem bæði liðin hafa spilað síðan þá eða næstum því marki fleira í hverjum leik.

Manchester United lék alls 142 leiki undir stjórn Jose Mourinho og vann 84 þeirra. Tapleikirnir voru 26. Liðið vann þrjá titla í hans stjóratíð eða Samfélagsskjöldinni 2016, enska deildabikarinn 2017 og Evrópudeildina 2017.

Manchester United fékk 176 stig í ensku úrvalsdeildinni í stjóratíð Jose Mourinho en fjögur félög náðu í fleiri stig eða Manchester City (222), Tottenham Hotspur (202), Chelsea (200) og Liverpool (196).

Í viðbót við bitlausan sóknarleik og oftar en ekki hundleiðinlega leikstíl þá hefur Manchester United vörnin algjörlega brugðist í vetur.

Huddersfield Town er í 19. sæti í ensku úrvalsdeildinni í dag en hefur engu að síður fengið á sig færri mörk en lið United. Manchester United hefur alls fengið á sig 29 mörk í sautján leikjum og einu liðin með verri vörn í vetur eru Fulham, Cardiff, Burnley og Southampton.

Hér fyrir neðan má sjá meira um þessa slöku tölfræði Manchester United undir stjórn Jose Mourinho.


























Fleiri fréttir

Sjá meira


×