Áætlað er að ballið byrji ellefu mínútur yfir tvö í dag, að íslenskum tíma, (9:11 í Flórída). Þá mun SpaceX skjóta Falcon 9 eldflaug á loft og er farmur eldflaugarinnar gervihnöttur fyrir her Bandaríkjanna.
Einungis 19 mínútum síðar ætla starfsmenn Blue Origin, sem er í eigu Jeff Bezos, að skjóta New Shepard eldflaug á loft. Verkefnið er á vegum NASA og felur í sér ýmsar tilraunir þar sem nokkuð er um rannsóknarbúnað um borð í eldflauginni. Finna má upplýsingar um þær tilraunir hér á vef Blue Origin.
Rúmum tveimur tímum eftir geimskot Blue Origin ætla starfsmenn franska fyrirtækisins Arianespace að skjóta gervihnetti á braut um jörðu frá Frönsku Gíneu. Notast verður við rússneska Soyuz eldflaug.
Lokaskotið verður svo í nótt þegar fyrirtækið ULA, sem er í eigu Boeing og Lockheed Martin, mun svo skjóta Delta Heavy eldflaug á loft frá Kaliforníu klukkan 01:57 aðfaranótt miðvikudags.