Erlent

Tugur manna í sjálfheldu án rafmagns, vatns og síma vegna hraunflæðis á Hawaii

Gunnar Hrafn Jónsson skrifar
Engin leið er að vita hversu lengi gosið mun standa eða hversu langt hraunið nær þegar upp er staðið.
Engin leið er að vita hversu lengi gosið mun standa eða hversu langt hraunið nær þegar upp er staðið.
Um tugur manna er fastur á svæði sem nú er einangrað vegna kröftugs hraunflæðis á Hawaii. Björgunarsveitir gengu á milli húsa á svæðinu í morgun til að láta íbúana vita að síðasta undankomuleið þeirra væri að lokast. Nokkrir fóru en um það bil tíu urðu eftir.

Hraunkvikan hefur nú rofið allar rafmagnslínur, símalínur og vatnslagnir til þeirra húsa sem enn standa. Þá næst ekki farsímasamband þar. Ekki er talið að íbúarnir séu í lífshættu þessa stundina en þyrlur verða sendar til að sækja það ef hraunið virðist ætla að flæða í átt að síðustu húsunum.

Að minnsta kosti 87 íbúðarhús hafa farið undir hraunbreiðuna síðan hraunkvikan byrjaði að flæða fyrir mánuði síðan. Hraunið hefur nú flætt yfir rúmlega 14 ferkílómetra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×