Erlent

Rekinn fyrir að keyra á mann sem hann veitti eftirför

Gunnar Hrafn Jónsson skrifar
Sjónarvottum blöskraði þegar þeir sáu lögreglubíl keyra maninn niður
Sjónarvottum blöskraði þegar þeir sáu lögreglubíl keyra maninn niður Athens-Clarke County Police Department
Lögreglumaður í Georgíu í Bandaríkjunum hefur verið rekinn vegna myndbands sem sýnir hann keyra á mann sem hann veitti eftirför og gat ekki stöðvað. Atvikið átti sér stað í fyrradag.

Lögreglumaðurinn, sem heitir Taylor Saulters, var að elta mann sem hafði brotið skilorð og reyndi að flýja á hlaupum. Í eltingaleiknum sprakk eitt dekk lögreglubílsins og Saulters átti í erfiðleikum með að keyra fyrir manninn svo hann gæti stöðvað för hans.

Skyndilega jókst hraði lögreglubílsins og hann keyrði aftan á manninn sem var á hlaupum. Talsmaður lögreglunnar segir alls ekki hægt að fullyrða að Saulters hafi ætlað sér að keyra á manninn, raunar sé talið að svo hafi ekki verið, en hann hafi sýnt vítavert gáleysi og eigi ekki heima í starfi lögreglumanns.

Á myndbandinu heyrist að sjónarvottar hrópa á lögreglumanninn og krefjast þess að vita hvers vegna hann hafi keyrt á vegfaranda. Saulters heyrist einnig hóta að nota rafbyssu á manninn þar sem hann liggur í götunni eftir áreksturinn.

Það sem hefur kannski gert útslagið og kostað Saulters vinnuna er að maðurinn heyrist segja að hann sé slasaður og þá svarar lögreglumaðurinn: „Ég veit. Ég veit hvað ég gerði. En af hverju varstu að hlaupa frá mér?“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×