Erlent

Reiði í Skotlandi eftir að sjónvarpsstjarna skaut villtar geitur

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Talið er að geitategundin sem um ræðir hafi komið til Bretlandseyja fyrst fyrir um fimm þúsund árum.
Talið er að geitategundin sem um ræðir hafi komið til Bretlandseyja fyrst fyrir um fimm þúsund árum. Mynd/Larysa Switlyk
Töluverð reiði ríkir í garð bandarísku sjónvarpsstjörnunnar Larysa Switlyk eftir að hún skaut villtar geitur á skosku eyjunni Islay og birti myndir af dýrunum á Instagram.

Switlyk stýrir sjónvarpsþættinum Larysa Unleashed þar sem hún ferðast um heiminn og fjallar um veiði og veiðitengd málefni. Var hún stödd á Skotlandi á dögunum, nánar tiltekið á eyjunni Islay, sem helst er þekkt fyrir blómlega viský-framleiðslu. Þar mundaði hún byssuna, klædd í feluliti og felldi hún ásamt ferðafélaga sínum villtar geitur sem hafast við á eyjunni.

„Náði fullkomnu 200 jarda skoti og náði honum,“ skrifar hún við eina myndina.

Þá bætir hún við að hún bjóði upp á veiðiferðir í Skotlandi. Veiðin, sem og tilboð um veiðiferðir, ,virðist hafa ofboðið fjölmörgum íbúum eyjunnar sem og skoska þingmanninum Michael Russel sem segir að þrátt fyrir að það sé ekkert sem banni veiði á geitunum sé framkoma Switlyk til skammar

„Að sjá fólk í felulitum með öflug skotvopn fagna því að hafa drepið geit, hvað þá geithafur, er algjörlega óásættanlegt,“ sagði Russel í samtali við BBC. Sagði hann að fjölmargir hefðu haft samband við sig en Russel er þingmaður héraðsins sem Islay tilheyrir.

Segist hann hafa vakið athygli umhverfisráðherra Skotlands á veiðunum til þess að sjá hvað hægt væri að gera í málinu.

„Ég tel að þetta sé óæskilegt og ósmekklegt,“ sagði Russel. „Svona er 21. aldar Skotland ekki. Svona er 21. aldar Islay ekki.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×