„Ég er á því að innan almenna opinbera geirans þá séu efstu laun viða algjörlega úr takti við það sem almennt gerist í samfélaginu. Hins vegar er ekki nóg að opinberi vinnumarkaðurinn taki á sínum málum það verður hinn almenni líka að gera. Þar hafa hækkanir einstakra forstjóra og toppa verið úr öllum takti við raunveruleikann,“ sagði Ásmundur Einar.
„Í því efni gengur ekki að bæði samtök atvinnulífs og verkalýðshreyfing sitji hjá þegar kemur að fyrirtækjum sem eru í eigu lífeyrissjóða. Þar getið þið haft áhrif og beitt ykkar völdum. Eftir að hafa farið yfir málin með ýmsum aðilum bæði á opinbera og almenna vinnumarkaðnum þá eru rökin sem gjarnan eru höfð uppi þau að fyrir hækkunum í efsta lagi að hækkunin sé vegna þess að laun hliðstæðra starfa hafi hækkað og þetta sé gert til þess að laun séu samkeppnishæf.“
Tvær mögulegar leiðir
Ásmundur Einar sagði að það væru tvær leiðir til að taka á launum í efsta lagi samfélagsins. Annars vegar að þeir sem ráði ríkjum, bæði á opinberum og almennum vinnumarkaði taki höndum saman og grípi til aðgerða en hin leiðin sé að beita skattkerfinu.„Ég hyggst á næstunni halda áfram að fara ofan í þessi mál og ætla að beita mér fyrir því að samstaða náist um það að taka á efstu launum samfélagsins. Þar þurfa að koma að báðir aðilar vinnumarkaðar, hið opinbera forystumenn lífeyrissjóða og forstöðumenn stærstu fyrirtækja þessa lands. Ég hef sagt það áður og ég meinti það þá og segi það enn, þessari vitleysu í efsta laginu verður að linna.“
„Nú vil ég hins vegar bæta við og segja að ef ekki næst samstaða um að stíga skref sem koma böndum á efstu lög samfélagsins eins og ég lýsti hér að framan þá mun sá sem hér stendur styðja verkalýðshreyfinguna í því að setja hátekjuskatt á hæstu tekjur íslensks samfélags,“ sagði Ásgeir og uppskar mikið lófaklapp fundargesta.