Alls liggja sex manns undir grun um að tengjast íkveikjum í sænsku borginni Gautaborg og nágrannabæjum á mánudagskvöldið. Talsmaður sænsku lögreglunnar greindi frá þessu í kvöld.
„Við höfum engar upplysingar um að einhver samtök standi að baki íkveikjunum,“ segir Malin Sahlström, upplýsingafulltrúi hjá Vesturumdæmi sænsku lögreglunnar, í samtali við SVT.
Alls var kveikt í um 150 bílum eða þeir skemmdir í borgum í vesturhluta Svíþjóðar á mánudagskvöldið.
Í frétt SVT kemur fram að tveir menn á þrítugsaldri hafi verið handteknir í Svíþjóð vegna málsins, en þeir eru báðir búsettir í Gautaborg. Þriðji maðurinn var handtekinn af lögreglu í Tyrklandi.
Þrír til viðbótar voru handteknir á mánudag í Hjällbo og Bergsjön.
