Viðskipti innlent

Bókun metin á rúmlega milljarð króna árið 2017

Helgi Vífill Júlíusson skrifar
Hjalti Baldursson forstjóri Bókunar.
Hjalti Baldursson forstjóri Bókunar.
Norvik, sem er í eigu fjölskyldu Jóns Helga Guðmundssonar sem oft er kenndur við Byko, keypti tæplega 24 prósenta hlut í hugbúnaðarfyrirtækinu Bókun fyrir um tvær milljónir evra, jafnvirði um 255 milljóna króna, árið 2017. Virði alls hlutafjár Bókunar var því 1,1 milljarður króna á þeim tíma miðað við þær upplýsingar sem birtast í ársreikningi Norvik og núverandi gengi gjaldmiðla.

Upplýst var í apríl síðastliðnum að TripAdvisor, sem rekur heimsþekkta ferðasíðu, hefði keypt Bókun. Hugbúnaður fyrirtækisins er mest notaða sölu- og birgðakerfið í íslenskri ferðaþjónustu.

Áður en fjölskylda Jóns Helga gekk í hluthafahópinn áttu Hjalti Baldursson, forstjóri Bókunar, og Ólafur Gauti Guðmundsson tæknistjóri félagið að fullu. Í fyrra lækkaði hlutur Hjalta í Bókun úr 62,5 prósentum í 44,7 prósent. Fram kemur í ársreikningi HIBB Holding, sem er í eigu Hjalta, að félagið hafi selt hluta af eign sinni í Bókun og tekið þátt í hlutafjáraukningu í félaginu.

Hjalti var framkvæmdastjóri Straumborgar, fjárfestingarfélags fjölskyldu Jóns Helga, á árunum 2005-2012.

Með kaupunum á Bókun mun TripAdvisor útvíkka vöruframboð sitt með því að þjónusta ferðaþjónustuaðila með rekstrar- og stjórnunarhugbúnaði til viðbótar við að starfrækja stærsta dreifingarnet í heiminum fyrir ferðir.


Tengdar fréttir

TripAdvisor kaupir Bókun ehf.

Ferðaþjónustusíðan TripAdvisor hefur keypt íslenska fyrirtækið Bókun ehf., sem framleiðir hugbúnað fyrir ferðaþjónustu. TripAdvisor er stærsta alþjóðlega síðan á þessu sviði og hefur meira en 300 milljón notendur um allan heim.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×