Hjalti Halldórsson og Bjartmar Pétursson hafa keypt hlut Sigurðar Gísla Björnssonar í fyrirtækinu Bacco Seaproducts. Meint skattalagabrot Sigurðar Gísla eru til rannsaknar hjá skattrannsóknarstjóra en málið var tekið til rannsóknar eftir Panama-lekann.
Í tilkynningu frá Hjalta og Halldóri segir að nauðsynlegt hafi verið að Sigurður Gísli seldi sinn hlut vegna meintra skattalagabrota sem nú eru til rannsóknar. Ákvörðunin hafi verið tekin til að vernda framtíðarhagsmuni félagsins og viðskiptasambönd þess. Sigurður Gísli sé nú ekki á nokkurn hátt tengdur Bacco Seaproducts.
Þá keyptu þeir einnig hlut Magnúsar Guðmundssonar í fyrirtækinu. Sigurður Gísli er stofnandi og eigandi útflutningsfyrirtækisins Sæmark ehf en í tilkynningunni segir allt lykilstarfsfólk Sæmarks hafi upp störfum hjá félaginu. Hjalti segir það hafa leitað til Bacco Seaproducts eftir störfum.
„Ákveðið hafi verið að bjóða starfsfólkinu störf hjá Bacco Seaproducts enda búi það yfir þekkingu og reynslu sem sé mikilvæg íslenskum sjávarútvegi. Hagsmunir framleiðanda, starfsfólks og viðskiptavina hafi verið hafðir að leiðarljósi við ákvörðunina,“ segir í tilkynningunni.
Fréttablaðið greindi frá því fyrr í mánuðinum að húsleit hafi verið gerð á heimili Sigurðar Gísla Björnssonar. Er hann grunaður um stórfelld skattaundanskot sem talin eru hlaupa á hundruðum milljóna króna. Eignir hans voru á sama tíma kyrrsettar og bankareikningar haldlagðir.
Sem fyrr segir var málið tekið til rannsóknar eftir Panama-lekann, en í framhaldi af honum keypti skattrannsóknarstjóri gögn er varða fjármuni Íslendinga í skattaskjólum.
