Körfubolti

Fimm landsliðskonur gáfu ekki kost á sér í Evrópuleiki körfuboltalandsliðsins

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Rósa Björk Pétursdóttir úr Haukum er nýliði í íslenska landsliðinu.
Rósa Björk Pétursdóttir úr Haukum er nýliði í íslenska landsliðinu. Vísir/Ernir
Ívar Ásgrímsson, þjálfari íslenska kvennalandsliðsins í körfubolta, valdi einn nýliða í tólf manna landsliðshóp sinn fyrir tvo leiki í undankeppni EM 2019 en leikirnir fara fram í febrúar.

Rósa Björk Pétursdóttir frá Haukum kemur nú inn í landsliðshópinn í fyrsta sinn en þar eru einnig þrír leikmenn sem hafa ekki spilað keppnisleik fyrir landsliðið. Það eru þær Dýrfinna Arnardóttir frá Haukum og Blikarnir Isabella Ósk Sigurðardóttir og Sóllilja Bjarnadóttir sem halda sæti sínu frá því í vináttulansleikjum milli jóla og nýárs.

Það vekur athygli að fimm landsliðskonur gefa ekki kost á sér í verkefnið. Það eru þær Ragna Margrét Brynjarsdóttir úr Stjörnunni, Hallveig Jónsdóttir úr Val og Keflvíkingarnir Thelma Dís Ágústsdóttir, Birna Valgerður Benónýsdóttir og Embla Kristínardóttir. Emelía Ósk Gunnarsdóttir er síðan ekki með vegna meiðsla.

Fyrri leikurinn verður gegn Bosníu í Sarajevo þann 10. febrúar og seinni leikurinn fer svo fram þann 14. febrúar gegn Svartfjallalandi í Podgorica.

Íslenska liðið mun ferðast út þann 6. febrúar og vera við æfingar í Bosníu fyrir fyrri leikinn og fara svo niður til Svartfjallalands daginn eftir fyrri leikinn og gera sig klárt þar fyrir seinni leikinn sem fer eins og áður segir fram miðvikudaginn 14. febrúar.

Íslenska kvennalandsliðið í febrúar 2018:

Bakverðir

Helena Sverrisdóttir, Haukum

Guðbjörg Sverrisdóttir, Val

Þóra Kristín Jónsdóttir, Haukum

Sóllilja Bjarnadóttir, Breiðabliki

Framherjar

Berglind Gunnarsdóttir, Snæfelli

Isabella Ósk Sigurðardóttir. Breiðabliki

Rósa Björk Pétursdóttir, Haukum

Sigrún Sjöfn Ámundardóttir, Snæfelli

Dýrfinna Arnardóttir, Haukum

Miðherjar

Elín Sóley Hrafnkelsdóttir, Val

Hildur Björg Kjartansdóttir, Legonés á Spáni

Sandra Lind Þrastardóttir, Keflavík




Fleiri fréttir

Sjá meira


×