Innlent

Nektardagatöl starfsmanna Síldarvinnslunnar tekin niður

Ingvar Þór Björnsson skrifar
Gunnþór Ingvason framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar.
Gunnþór Ingvason framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar. Vísir
Gunnþór Ingvason, framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar, tilkynnti á starfsmannafundi á föstudaginn að dagatöl prýdd fáklæddum eða nöktum konum mættu ekki fara upp á vegg á vinnustaðnum og í skipum Síldarvinnslunnar. Stundin greindi fyrst frá þessu.

Gunnþór sagði í samtali við Stundina að þetta væri eitthvað sem ætti að tilheyra fortíðinni og væri hluti af stærri umræðu og viðhorfsbreytingum sem allir þurfa að taka þátt í. Einnig nefndi hann að konum sem vinna hjá Síldarvinnslunni verði að líða vel á vinnustað.

Starfsmenn fræddir um #metoo

Þá bauð Síldarvinnslan upp á opinn fyrirlestur um karlmenn og #metoo í Egilsbúð í Neskaupstað. Magnús Orri Schram, stjórnarmaður í UN Women á Íslandi, var fyrirlesari. 

Magnús Orri fjallaði um ábyrgð karlmanna í breyttum heimi ekki síst í ljósi nýrra viðhorfa sem tengjast #metoo byltingunni. Í máli hans kom fram hvatning til karlmanna um að endurskoða viðhorf sín og hegðun í garð kvenna. 

Á fyrirlestrinum lásu þær Ingibjörg Þórðardóttir, Birta Sæmundsdóttir og Sólveig Helga Björgúlfsdóttir frásagnir kvenna sem orðið hafa fyrir áreitni. Um sjötíu manns sóttu fyrirlesturinn.

Ekki náðist í Gunnþór Ingvason við vinnslu fréttarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×