Innlent

Óljóst hvernig bregðast skal við kynferðisbrotum innan grunnskólanna

Hersir Aron Ólafsson skrifar
Skortur er á viðbragðsáætlunum og skýrum leiðbeiningum vegna kynferðisofbeldis í grunnskólum og frístundamiðstöðvum í Reykjavík. Þetta er meðal þess sem fram kom í máli ungmenna sem sátu fund með borgarstjóra í dag.

Um var að ræða sautjánda árlega fundinn sem Reykjavíkurráð ungmenna sat með borgarstjóra. Á fundinum fóru ungmennin yfir atriði sem betur mega fara í samfélaginu og gerðu tillögur að úrbótum. Fyrsta erindi fundarins flutti fulltrúi Elínborg Una Einarsdóttir, fulltrúi úr ungmennaráði Breiðholts, en hún vakti athygli á því að samkvæmt síðustu PISA könnun eru einkunnir nemenda af erlendum uppruna hér á landi um 23 prósentustigum lægri en innfæddra. Þetta sé mun verri tölfræði en í nágrannalöndum.

„Þau geta fengið mjög takmarkaða aðstoð heimafyrir vegna skorts á íslenskukunnáttu,“ segir Elínborg.

Hún segir nauðsynlegt að bæta heimanámsaðstoð fyrir þessa nemendur og auka á sama tíma íslenskukennslu fyrir foreldra, þannig að þeir geti veitt aðstoðina heimafyrir.

„Við viljum líka fá jafningja, ungmenni sem standa námslega vel að vígi til að koma og hjálpa við lærdómsaðstoðina og fá það metið til eininga. Það gæti þá líka verið jákvætt upp á félagsleg tengsl,“ segir Elínborg.

Oft erfitt að vita hvað býr að baki A, B og C

Þá var einkunnakerfi grunnskólanna sem tekið var upp fyrir fáeinum árum sérstaklega gagnrýnt, en þar er gefið A,B,C OG D í stað tölustafa.

„Þetta var svo slæm innleiðing. Það var engin fræðsla og ég held að kennarar hafi margir strax ekki viljað þessar breytingar og ekki viljað læra inn á þetta,“ segir Ebba Kristín Yngvadóttir, fulltrúi í ungmennaráði Grafarvogs.

Þannig sé mikill skortur á samræmi í því hvað það þýði nákvæmlega að fá t.d. A eða B. Fræða þurfi bæði starfsfólk og nemendur, svo kerfið virki almennilega.

„Ég gæti verið með B og tvær villur í prófi, en svo er einhver annar með B og 20 villur,“ bendir Ebba á.



Kynferðisofbeldi oft dulið innan veggja skólans


Síðasta, en hugsanlega veigamesta erindið, sneri svo að kynferðislegu ofbeldi og áreitni innan grunnskóla og frístundamiðstöðva.

„Það er mjög algengt að ungmenni undir átján ára lendi í þessu og það er svolítið dulið að þetta sé að gerast innan veggja skólans,“ segir Eydís Helga Viðarsdóttir, fulltrúi í ungmennaráði Árbæjar og Holta. Hún lagði fram tillögu um bættar áætlanir og verklag í málaflokknum ásamt Kristínu Láru Torfadóttur, sem einnig situr í ungmennaráðinu.

Kristín Lára bendir á að fyrir nokkrum árum hafi ítarlegar viðbragðsáætlanir og leiðbeiningar vegna eineltis verið settar inn á vefi flestra skólastofnana. Sömu sögu sé hins vegar ekki að segja um kynferðisbrot. Mikilvægt sé að ungmenni séu upplýst um að sökin sé ekki þeirra og að gott sé að segja frá.

„Það væri hægt að hafa áberandi viðbragðsáætlun gegn kynferðislegu ofbeldi og áreitni inni á heimasíðu skólans sem væri þá mjög sýnileg eins og eineltisáætlunin er,“ segir Kristín.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×