Innlent

Lögðu hald á skammbyssu, skotfæri og skothelt vesti

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Þremenningarnir hafa allir komið við sögu lögreglu.
Þremenningarnir hafa allir komið við sögu lögreglu. Vísir/Vilhelm
Tveir karlar og ein kona voru handtekin í húsi í Kópavogi á fimmta tímanum í nótt eftir að lögreglu bárust áreiðanlegar upplýsingar um að inni væri væri maður vopnaður skammbyssu. Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.

Talsverður viðbúnaður var á svæðinu vegna málsins og var sérsveit ríkislögreglustjóra kölluð til aðstoðar lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.

Við húsleit var lagt hald á skammbyssu, skotfæri og skothelt vesti. Þremenningarnir sem handteknir voru eru á þrítugs- og fertugsaldri og hafa öll komið áður við sögu lögreglu.

Uppfært klukkan 10:31:

Gunnar Hilmarsson, aðalvarðstjóri hjá lögreglu, segir í samtali við Vísi að fólkið hafi enn ekki verið yfirheyrt en það var í mjög annarlegu ástandi þegar lögreglu bar að garði. Þá staðfestir Gunnar að um sé að ræða góðkunningja lögreglu.

Tilkynning um byssumanninn barst lögreglu um klukkan 23 í gærkvöldi og voru þremenningarnir handteknir á fimmta tímanum í morgun. Búist er við því að fólkið verði yfirheyrt í dag. Þá liggur ekki fyrir hvers vegna téð skotvopn og skothelt vesti voru inni á heimilinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×