Runólfur Pálsson, yfirlæknir líffæraígræðsluteymis, segir í svari við fyrirspurninni að gjafatíðnin hafi lengi verið mjög lág, eða um tíu gjafir á hverja milljón íbúa.
Sjá einnig: Nánasti vandamaður getur virt fyrirmæli hins látna að vettugi

Mengið er smátt, gjafafjöldinn lítill og því geta verið miklar sveiflur á milli ára, segir Runólfur.
Ákveðnar ástæður geti verið fyrir þessari uppsveiflu í gjafatíðni.
„Í aðdraganda 2015 var mikil umræða um þetta mál. Árið 2014 var mikil umræða vegna Skarphéðins Andra sem hafði lent í bílslysi. Hann hafði rætt það við fjölskyldu sína að hann vildi gefa líffæri ef þessar aðstæður kæmu upp og þau töluðu um það á opinberum vettvangi. Það hafði veruleg áhrif,“ segir Runólfur.

Frumvarp um áætlað samþykki líffæragjafar var samþykkt á Alþingi á miðvikudag. Hin nýja löggjöf þýðir að gert verði ráð fyrir því að einstaklingar samþykki að líffæri þeirra séu notuð til líffæragjafar.
Í stað þess að þurfa að skrá sig sérstaklega sem líffæragjafi, líkt og tíðkaðist, þarf nú að tilkynna sérstaklega ef maður vill ekki gefa líffæri sín. Runólfur segir nýju löggjöfina þýðingarmikinn þátt í að hámarka fjölda líffæragjafa, auk annarra þátta.
„Almenningsfræðsla og umræða í samfélaginu hefur klárlega góð áhrif.“