Jakob S. Jónsson, leiðsögumaður og leikstjóri, hefur dregið framboð sitt til formanns Neytendasamtakanna til baka. Í tilkynningu frá Jakobi segir að hann geri þetta af persónulegum ástæðum.
Þing Neytendasamtakanna verður haldið í Reykjavík helgina 27. til 28. október þar sem kosinn verður nýr formaður. Upphaflega voru sex í framboði til formanns en fyrr í mánuðinum dró Guðmundur Hörður Guðmundsson framboð sitt til baka. Í framboði eru þá Guðjón Sigurbjartsson, Breki Karlsson, Ásthildur Lóa Þórsdóttir og Unnur Rán Reynisdóttir.
Af óhjákvæmilegri nauðsyn
Jakob segir í sinni tilkynningu að hann hafi ákveðið að bjóða sig fram til formanns samtakanna eftir að skorað hafi verið á hann. Neytendamál hafi lengi verið áhugamál hans og sá hann fyrir sér að gaman yrði að vinna þeim málaflokki framgang í hlutverki formanns öflugra neytendasamtaka.
„Nú hafa þó veður skyndilega skipast þannig í lofti að ég sé þann einn kostinn í stöðunni að draga framboð mitt tilbaka og er það vissulega gert með eftirsjá en af óhjákvæmilegri nauðsyn.
Stuðningsmönnum mínum þakka ég af heilum hug alla uppörvun og hvatningu og minni á að ávallt er þörf á að stuðla að framgangi málefna neytenda. Af nógu er að taka og miklu skiptir að þar standi öflugt lið jafnt í forystu sem og bakvarðarsveit.
Neytendasamtökunum óska ég alls góðs í framtíðinni. Nýrri stjórn óska ég að henni takist að gera Neytendasamtökin að fjölda- og baráttusamtökum neytenda á Íslandi.“

