Innlent

Metmalbikun í Reykjavík á síðasta ári

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Lagðir voru 30 kílómetrar af malbiki á liðnu ári í Reykjavík.
Lagðir voru 30 kílómetrar af malbiki á liðnu ári í Reykjavík. Vísir/Ernir
Malbikað var fyrir tæpan 1,3 milljarð króna í Reykjavík árið 2017. Að öllum líkindum er um að ræða mestu malbikunarframkvæmdir í sögu borgarinnar á einu ári, að því er fram kemur í frétt á vef Reykjavíkurborgar.

Lagðir voru 30 kílómetrar af malbiki á liðnu ári sem er um 7,1 prósent af heildarlengd gatnakerfisins í Reykjavík, segir jafnframt í fréttinni. Framkvæmdirnar voru liður í því að bæta úr brýnni malbikunarþörf vegna sparnaðar í málaflokknum árin eftir hrun. Þá hefur umferð einnig aukist í borginni og nýtt malbik því nauðsynlegt í flestum hverfum.

Í ár voru alls malbikaðir 226.821 fermetrar eða 30 km í borginni í öllum hverfum hennar. Lagt var nýtt malbik fyrir rúman 1,1 milljarð króna og gert við götur fyrir tæpar 200 milljónir.Reykjavíkurborg
„Þetta er mikilvæg innviðauppbygging í borginni og nauðsynleg til að halda gatnakerfinu við. Verkefnið heldur áfram á þessu ári þegar enn fleiri götur verða teknar fyrir í samræmi við ástandsmat og þá forgangsröð sem unnin hefur verið,“ segir Dagur B. Eggertsson borgarstjóri.

Árið 2018 er stefnt að því að slá metið í Reykjavík á ný. Gert er ráð fyrir að 1,74 milljarði verði varið til malbikunar á 43 kílómetrum af götum borgarinnar. Árin 2016-2018 munu því um 90 kílómetrar hafa verið malbikaðir í Reykjavík en til samanburðar er vegalengdin frá höfuðborginni og til Hellu 91 kílómetri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×