Körfubolti

Landsliðsfólkið okkar er á heimleið en glugginn lokar á miðnætti

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Helena Sverrisdóttir er að leita sér að liði á Íslandi.
Helena Sverrisdóttir er að leita sér að liði á Íslandi. Vísir/Vilhelm
Síðasti möguleikinn fyrir íslensku körfuboltafélögin til að styrkja liðin sín fyrir leiki á árinu 2018 er í dag en félagskiptaglugginn lokar á miðnætti í kvöld.

Kristófer Acox mun væntanlega ganga frá félagsskiptum sínum yfir í KR í dag en það er meiri spenna um hvar þau Elvar Már Friðriksson og Helena Sverrisdóttir enda.

Allt þetta landsliðsfólk okkar er á heimleið eftir að hlutirnir gengu ekki alveg upp í atvinnumennskunni.

Elvar Már Friðriksson hefur verið orðaður við Njarðvík en öll liðin í Domino´s deild kvenna hljóta að vera á eftir Helenu Sverrisdóttur, bestu körfuboltakonu landsins.

Félagskiptaglugginn lokar þó bara tímabundið á miðnætti því hann er bara lokaður til áramóta fyrir 20 ára og eldri. Hann opnar svo aftur 1. janúar og er þá opinn til 31. janúar þegar hann lokar endanlega.

KKÍ minnir á þetta á heimasíðu sinni og vekur líka athygli á kafla úr reglugerð um félagskipti.

„Við lok félagaskiptaglugga hverju sinni skal heimila skilum á félagaskiptagögnum og greiðslum á félagaskiptagjöldum leikmanna innan þess dags áður en félagaskiptaglugginn lokar á miðnætti. Félög skulu einnig vera búinn að gera upp við KKÍ í þeim tilfellum þar sem leikmenn eru eldri en 20 ára,“ segir á heimasíðu KKÍ en þar kemur líka fram:  

„Við lok félagskiptaglugga og vegna félagaskipta erlendra leikmanna mega gögn berast eftir lokun gluggans um staðfestingu frá viðeigandi stofnun og LOC. Þó skal senda beiðni á skrifstofu KKÍ um LOC fyrir lok gluggans.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×