Vísir óskaði eftir þessum upplýsingum fyrir viku en að sögn Bjarna Brynjólfssonar upplýsingastjóra Reykjavíkurborgar tók tíma að fara yfir alla reikningana að teknu tilliti til persónuverndarákvæða.

Þeir lesendur sem vilja glöggva sig betur á kostnaði við bygginguna með því að skoða meðfylgjandi reikninga skulu athuga að fyrst getur að líta nokkrar blaðsíður með ýmsum tilvísunarnúmerum.
Fólk ætti ekki að láta það fæla sig frá og skrolla neðar í skjalið því þar má svo sjá reikninga sem lagðir hafa verið fram vegna byggingarinnar. Reikningarnir eru fyrir misháum upphæðum, allt frá nokkrum hundrað köllum uppí milljónir. Þarna er meðal annars að finna reikninga sem taka til byggingar náðhússins og dönsku stráanna sem og reikninga fyrir rokjárnum og lömum.
Ekki ætti að þurfa að orðlengja að málið hefur valdið gríðarlegri pólitískri ólgu í Reykjavík; hart hefur verið sótt að Degi B. Eggertssyni borgarstjóra, einkum af þeim Eyþóri Arnalds oddvita Sjálfstæðisflokksins, Vigdísi Hauksdóttur fulltrúa Miðflokksins í borgarstjórn og Kolbrúnu Baldursdóttur Flokki fólksins. Kostnaður við endurbygginguna fór úr áætluðum 155 milljónum í 415 milljónir.