Í erindi sínu rekur rektor feril þess umbóta- og breytingastarfs innan skólans sem fjallað var um í frétt Fréttablaðsins. Þá vék rektor að fyrirhuguðum fundahöldum og aðgerðum, meðal annars í tengslum við #Metoo-umræðuna og stöðu kvenna innan háskólasamfélagsins. Í erindi sínu minnir rektor einnig á að þótt ferlið sé ekkert feimnismál skuli aðgát höfð í nærveru sálar og mál einstakra starfsmanna séu trúnaðarmál sem og innri mál skólans sem eru í ferli.
Stuttu eftir að starfsmönnum barst erindi rektors ritaði starfsmaður færslu á Facebook-síðu starfsmannafélags skólans og benti á að starfsmenn hefðu fullt leyfi til að ræða mál sem varða þá sjálfa við hvern sem er og á hvaða vettvangi sem þeim sýndist, en yfirmönnum og stjórnendum bæri hins vegar að gæta trúnaðar um málefni einstakra starfsmanna.

Í gær tilkynntu stjórnendur Facebook-síðunnar að henni yrði lokað. Var til þess vísað að tilvist síðunnar hefði verið til umræðu í þó nokkurn tíma hjá þeim sem henni stýra. Hún hafi verið stofnuð að frumkvæði starfsmannafélagsins með það fyrir augum að hafa jákvæð áhrif á félagslíf starfsmanna og efla starfsandann en umræða á síðunni hafi þróast í aðrar áttir og þyki stjórnendum síðunnar það miður og ákveðið hafi verið að loka henni. Nokkrar umræður spruttu um lokunina á síðunni áður en henni var lokað í gær.
„Okkur sem erum skráðar stjórnendur síðunnar þykir óþægilegt að bera ábyrgð á ýmsu neikvæðu sem komið hefur þar inn og þess vegna fannst okkur hreinlegra að loka síðunni og finna aðra leið fyrir félagsleg samskipti,“ segir Sólveig Elín Þórhallsdóttir, formaður Starfsmannafélags Háskólans á Akureyri. Hún lætur þess sérstaklega getið að síðan sé ekki tengd vinnu starfsmanna heldur hluti af félagslífi starfsfólks. Hún segir það alls ekki markmið stjórnendanna að þagga niður neina umræðu.