Innlent

Appelsínugul viðvörun eins og vika á leikskólanum

Jakob Bjarnar skrifar
Stefán og Friðrik furða sig á því að appelsínugul viðvörun sé höfð yfir það veður sem nú gengur yfir landið.
Stefán og Friðrik furða sig á því að appelsínugul viðvörun sé höfð yfir það veður sem nú gengur yfir landið.
Takmarkanir íslenskunnar á ögurstundu virðast vera að koma á daginn. Eða, það er í það minnsta mat Stefáns Pálssonar sagnfræðings og Friðriks Erlingssonar rithöfundar. Þeim þykir hin appelsínugula viðvörun ekki gefa rétta mynd af veðrinu sem nú gengur yfir landið.

„Enn koma takmarkanir íslenskunnar í ljós. - „Orange Alert“ er mjög dramatískur frasi á ensku og felur í sér mikla ógn. „Appelsínugul viðvörun“ hljómar meira eins og eitthvað úr barnatímanum,“ segir Stefán Pálsson á sínum Facebook-vegg.

Þetta kann að koma einhverjum spánskt fyrir sjónir, eða eins og Einar Benediktsson kvað: „Ég skildi að orð er á Íslandi til / um allt sem er hugsað á jörðu“. Og hvað þá þegar ýmis tilbrigði veðurfars eru annars vegar.

En, þetta snýst kannski ekki um það heldur þá tilhneigingu sem hefur færst í aukana að þýða allt beint úr ensku. Rithöfundurinn Friðrik Erlingsson er á svipuðum nótum og Stefán, honum þykir þessi appelsínugula viðvörun ekki gefa rétta mynd af stöðu mála:

„„Appelsínugul“ viðvörun - hljómar svolítið eins og „appelsínugul vika“ á leikskólanum og maður skynjar því ekki beinlínis hættuástand. Er Veðurstofu og Almannavörnum fyrirmunað að nefna stigin þrjú: Gult, rauðgult, rautt? (Jafnvel: Gult, rautt, svart? Sbr. „Nú er það svart!“)?“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×