Sport

Sægrænir hamborgarar og skrautlegir stuðningsmenn: NFL úrslitakeppnin heldur áfram á Stöð 2 Sport

Magnús Ellert Bjarnason skrifar
Bills stuðningsmenn eru þeir skrautlegustu Í Bandaríkjunum og þó víða væri leitað.
Bills stuðningsmenn eru þeir skrautlegustu Í Bandaríkjunum og þó víða væri leitað. Vísir // Getty
NFL – úrslitakeppnin heldur áfram í kvöld á Stöð 2 sport með tveim hörkuleikjum.

Fyrri leikurinn í dag hefst klukkan 18:05 að íslenskum tíma og er á milli Jacksonville Jaguars og Buffalo Bills.

Leikurinn fer fram í Jacksonville og er þetta í fyrsta skipti síðan 1999 sem að leikur í úrslitakeppninni er spilaður í þeirri ágætu borg í Flórída. Í tilefni af því ætla Jaguars að bjóða uppá vægast sagt skrautlegar veitingar. Hamborgarar og bjór af dælu verða í sægrænum lit, sama lit og búningur Jaguars.



Vörn Jaguars, sem hefur verið sú besta í NFL – deildinni þetta tímabil, fleytti þeim í úrslitakeppnina. Þá hefur hlaupaleikur liðsins, með Leonard Fournette í fararbroddi, verið frábær.

Buffalo Bills komst um síðustu helgi í úrslitakeppnina í NFL-deildinni í fyrsta sinn í sautján ár en þetta varð þó ekki ljóst fyrr en löngu eftir að leik þeirra lauk. Leikmenn Buffalo Bills voru samankomnir í búningsklefanum og fylgdust með því í sjónvarpinu þegar Cincinnati Bengals vann endurkomusigur á Baltimore Ravens og tryggði Bills-liðinu farseðilinn í úrslitakeppnina.

Bills-mafían, eins og stuðningsmenn Buffalo Bills kalla sig, fögnuðu einnig eins og þeim einum er lagið.

Síðari leikurinn hefst klukkan 21:40 að íslenskum tíma og er á milli New Orleans Saints og Carolina Panthers.

Sóknarleikur Saints, með nýliðann stórkostlega, Alvin Kamara, í fararbroddi hefur verið einn sá besti í deildinni. Þá hefur hinn reynslumikli leikstjórnandi liðsins, Drew Brees, verið frábær sem fyrr.

Kamara komst í fréttirnar í vikunni fyrir sparsemi sína, en hann segist einungis hafa keypt kjúklingavængi eftir að hann fékk tæplega milljón dollara bónus frá liðinu.

Lið Carolina Panthers, sem laut í lægra hald gegn Denver Broncos í leiknum um Superbowl árið 2015, hefur hins vegar alla burði til þess að valda liði Saints vandræðum. Varnarleikur þeirra hefur á köflum verið frábær og þá er leikstjórnandi liðsins, Cam Newton, fær um að taka yfir leiki þegar hann er í stuði. 

NFL

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×