Svokölluð „dauð svæði“ í heimshöfunum, þar sem ekkert súrefni er í sjónum, hafa fjórfaldast að stærð frá árinu 1950, að því er segir í nýrri vísindarannsókn sem greint er frá í tímaritinu Science. Að auki hafa svæði þar sem súrefnismagn er afar lítið, tífaldast á sama tíma.
Guardian segir frá þessu. Flest sjávardýr geta einfaldlega ekki lifað á þessum svæðum og haldi þróunin áfram vara vísindamennirnir við því að útrýming tegunda á stórum skala sé yfirvofandi.
Ástandið er rakið til loftlagsbreytinga og hækkandi sjávarhita en heitur sjór inniheldur minna súrefni en kaldur sjór.
Þá hefur það einnig áhrif nálægt ströndunum þegar mannskepnan sturtar sínum úrgangi og áburði óhreinsuðum út í sjó eins og víða er gert.
Stærstu dauðu svæðin eru í austanverðu Kyrrahafi og norðanverðu Indlandshafi.

