Innlent

Áfram dráttur á skipun dómara

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Settur dómsmálaráðherra gerði alvarlegar athugasemdir við umsögn dómnefndar um umsækjendurum átta dómaraembætti við Héraðsdóm Reykjavíkur og Vestfjarða.Í svarbréfi nefndarinnar áréttar nefndin að hún lúti ekki boðvaldi ráðherra heldur sé hún sjálfstæð stjórnsýslunefnd.

Eitt af því sem ráðherra gerði athugasemdir við var að umsækjanda með tuttugu ára reynslu sem héraðsdómari var raðað skör lægra en umsækjanda sem hafði verið settur dómari í átta ár. Í svarbréfi nefndarinnar segir: „Viðkomandi umsækjandi hefur sinnt dómarastörfum í um 16 ár, en ekki 20, að teknu tilliti til leyfa. Enn er þess að gæta að viðkomandi umsækjandi hefur ekki sinnt dómstörfum frá lokum ágúst 2008.“

Ráðherra vísaði líka til þess að lögmaður með 30 ára reynslu hefði verið metinn í 8.-10. sæti undir matsþættinum lögmannsstörf. Nefndin segir að umræddur lögmaður hafi lengst af starfað sem fulltrúi annarra lögmanna en ekki sjálfstætt með þeirri ábyrgð sem því fylgir og lætur síðan þessa ályktun fylgja um störf hans: „Samkvæmt opinberum gögnum verður hvorki séð að lögmannsstörf hans hafi verið fjölbreytt né umfangsmikil.“

Dómsmálaráðherra lýsti sig vanhæfan í málinu. Það þýddi að allir starfsmenn ráðuneytisins urðu vanhæfir og því hafa lögfræðingar utanríkisráðuneytisins komið að þessari vinnu fyrir hönd Guðlaugs Þórs Þórðarsonar setts dómsmálaráðherra.

Gert var ráð fyrir því að þeir átta héraðsdómarar sem skipa átti hæfu störf 2. janúar. Ljóst er að frekari dráttur verður á skipun þeirra og eins og sakir standa liggur ekki fyrir hverjar lyktir málsins verða.

„Við fengum umsögn frá nefndinni fyrir sjö virkum dögum. Þremur virkum dögum seinna sendum við spurningar til nefndarinnar vegna þess að okkar fannst rökstuðningur nefndarinnar ekki forsvaranlegur. Við fengum svarbréf í gær og við erum að reyna að vinna það eins og hratt og mögulegt er en á sama tíma að vanda vel til verka,“ segir Guðlaugur Þór. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×