Handbolti

Ekki skorað minna í átján ár

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
grafík/fréttablaðið
Átján ár eru síðan íslenska karlalandsliðið í handbolta skoraði jafn fá mörk á stórmóti og á EM í Króatíu sem nú stendur yfir. Strákarnir okkar stoppuðu stutt við í Króatíu en þeim mistókst að komast upp úr sínum riðli.

Ísland skoraði aðeins 24,7 mörk að meðaltali í leikjunum þremur á EM. Það þarf að fara allt aftur til ársins 2000, þegar EM fór einnig fram í Króatíu, til að finna stórmót þar sem íslenska liðið skoraði færri mörk að meðaltali í leik. Ísland skoraði þá 24,5 mörk í leik. Þá var hin svokallaða hraða miðja ekki komin til sögunnar, leikurinn var hægari og færri mörk skoruð að jafnaði í leik.

Skoruðu að vild

Íslendingar voru með eitt besta sóknarlið heims um langt árabil og skoruðu um og yfir 30 mörk í flestum leikjum. Frá 2003 til 2013 skoraði Ísland 29 mörk eða meira að meðaltali í leik á 11 af 13 stórmótum. Þó ber að slá þann varnagla að mótherjarnir á heimsmeistaramótum eru oft slakir. Ísland skoraði t.a.m. 55 mörk gegn Ástralíu á HM 2003 og 45 mörk gegn sama andstæðingi á HM 2007. Það skekkir heildarmyndina vissulega aðeins.

Sóknarleikur íslenska landsliðsins hefur látið á sjá á undanförnum árum. Á HM 2015 skoraði Ísland aðeins einu sinni meira en 30 mörk í leik og í fyrsta leiknum gegn Svíþjóð skoruðu strákarnir aðeins 16 mörk. Það var það minnsta sem íslenska liðið hafði skorað í leik á stórmóti frá því það gerði aðeins 12 mörk í 13 marka tapi, 12-25, fyrir Rússlandi á HM á Íslandi 1995.

Dæmið hefur snúist við

Ísland skoraði 30,7 mörk að meðaltali í leik á EM 2016 en fékk á sig 33,7 mörk. Þá komst liðið ekki upp úr sínum riðli og skömmu síðar hætti Aron Kristjánsson þjálfun þess.

Á HM í Frakklandi ári síðar, sem var fyrsta stórmót Geirs Sveinssonar með íslenska liðið, snarfækkaði mörkunum í leikjum Íslendinga. Strákarnir skoruðu aðeins 25,5 mörk að meðaltali í leik en fengu að sama skapi einungis 25,2 mörk á sig.

Íslenska liðið skoraði bara 74 mörk í leikjunum þremur á EM í Króatíu. Svartfjallaland var eina liðið sem skoraði minna í riðlakeppninni, eða 66 mörk. Þess ber að geta að Svartfellingar voru án síns besta manns, Vuko Borozan, á EM.

Varnarleikur Íslands á EM var ekki jafn sterkur og á HM í fyrra en langt frá því að vera slakur. Aðeins sex lið fengu á sig færri mörk í riðlakeppninni og Íslendingar fengu á sig jafn mörg mörk (82) og heimsmeistarar Frakka og sex mörkum færra en Norðmenn, silfurliðið frá síðasta HM. Varnarleikurinn mætti þó skila fleiri einföldum mörkum úr hraðaupphlaupum.

Arftakarnir ekki jafn öflugir

Einfalda og augljósa ástæðan fyrir hnignun íslensku sóknarinnar er að á undanförnum árum hafa leikmenn í heimsklassa lagt landsliðsskóna á hilluna. Ólafur Stefánsson hætti eftir Ólympíuleikana 2012, Róbert Gunnarsson, Alexander Petersson og Snorri Steinn Guðjónsson eftir EM 2016 og þá er Arnór Atlason ekki sami leikmaður og fyrir nokkrum árum. Allt frábærir sóknarmenn með mikla handboltaþekkingu og náðu afskaplega vel saman þegar þeir léku með landsliðinu.

Leikmennirnir sem hafa tekið við þeirra hlutverkum eru því miður ekki í sama gæðaflokki. Rúnar Kárason og Ólafur Guðmundsson eru góðar skyttur en ekki með sama auga fyrir spili og leikmennirnir sem þeir komu í staðinn fyrir. Selfyssingarnir Ómar Ingi Magnússon og Janus Daði Smárason hafa átt ágætis spretti með landsliðinu en þurfa að gera betur.

Aron Pálmarsson býr yfir einstökum hæfileikum, er einn besti leikmaður heims og sóknarleikur íslenska liðsins fer allur í gegnum hann. Það eru þungar byrðar á hans herðum en maður vill alltaf meira.

Lamað línuspil

Þá er línumannsstaðan stórkostlegt vandamál. Íslensku línumennirnir skoruðu aðeins fimm mörk á EM. Aðeins tékknesku línumennirnir skoruðu færri mörk. Arnar Freyr Arnarsson lofaði góðu í aðdraganda EM en skilaði aðeins einu marki á mótinu. Kári Kristján Kristjánsson átti stórgóðan leik gegn Serbum en er kominn yfir sitt besta. Það er synd að ekki komi fleiri mörk af línunni því fáir eru með jafn gott auga fyrir línuspili og Aron.

Skipulagið á íslensku sókninni gæti verið betra og það verður stærsta verkefni Geirs, eða þess sem tekur við af honum fái hann ekki nýjan samning, að laga sóknarleikinn, koma meira flæði á hann og búa til umhverfi þar sem styrkleikar leikmannanna nýtast sem best. Annars er hætt við að íslenska landsliðið dragist enn lengra aftur úr.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×