„Það sem hefur alltaf steytt á er að við höfum óskað eftir að fá sams konar aðgang að þeirra kerfi eins og við höfum að öllum sveitarfélaganetum á landinu, svokallaður óvirkur eða hrár aðgangur en Gagnaveitan hefur viljað selja okkur heildstæða fjarskiptaþjónustu,“ lýsir forstjóri Símans málinu í hnotskurn.

„Ástæða þess að við höfum ekki náð saman er sem sagt að þeir vilja alltaf selja okkur meira en við viljum kaupa,“ ítrekar Orri. „Þeir nálguðust okkur fyrir jól þótt það væri ekki mikið. Við ætlum sannarlega að reyna að kaupa af þeim vegna þess að langdýrasti hlutinn af svona fastlínukerfum liggur í jarðvegsframkvæmdum. Okkur finnst grátlegt ef það þarf að marggrafa á sama stað.“
Orri minnir á að von sé á nýrri löggjöf á vegum samgönguráðherra sem byggi á tilskipun frá Evrópusambandinu og muni ýta undir að málin fari í þann farveg sem Síminn sækist eftir. „Vonandi leysist málið sem fyrst og þá á viðskiptalegum forsendum á milli félaganna frekar en samkvæmt forskrift frá yfirvöldum. Þetta mun enda vel og annaðhvort gerist það hratt í samvinnu eða seinna og þá byggt á reglusetningu.“