Erlent

Foreldrar í haldi grunaðir um að hafa haldið 13 börnum föngnum á heimili sínu

Birgir Olgeirsson skrifar
Þau sem eru í haldi heita David Allen Turpin, 57 ára, og Louise Anna Turpin, 49 ára.
Þau sem eru í haldi heita David Allen Turpin, 57 ára, og Louise Anna Turpin, 49 ára. Vísir/Getty
Par er í haldi í Bandaríkjunum grunað um að hafa haldið börnum sínum föngum á heimili þeirra með því að hlekkja þau við rúm. 17 ára stúlku tókst að flýja heimilið í gær og hafa samband við lögregluna.

Hún sagði 12 systkini sín í haldi foreldra þeirra á heimilinu í Kaliforníu og þau hefðu þurft að hírast þar í mörg ár við mikið harðræði. 

Bandaríska fréttastofan CNN segir frá því að stúlkan, sem er líkt og fyrr segir 17 ára gömul, hefði litið út fyrir að vera tíu ára gömul og frekar vannærð að sjá.

Heimilið sem um ræðir er í borginni Perris í Kaliforníu-ríki en málið heyrir undir embætti lögreglustjórans í Riverside-sýslu.

Í tilkynningu frá embættinu kom fram að systkini stúlkunnar sem voru í haldi væru á aldrinum tveggja ára til 29 ára.

Þegar lögreglan fór inn á heimilið fann hún systkini stúlkunnar sem voru sum hver hlekkjuð við rúm. Litu þau einnig út fyrir að vera vannærð og höfðu greinilega lifað við mikinn óþrifnað.

Þau sem eru í haldi heita David Allen Turpin, 57 ára, og Louise Anna Turpin, 49 ára. Þau hafa verið ákærð fyrir pyntingar og að stofna lífi barna í hættu.

Sex af afkvæmum þeirra eru enn börn að aldri en þau eru vistuð á sjúkrahúsi þessa stundina. Afkvæmi parsins sem teljast fullorðin í skilningi laganna eru sjö talsins og eru einnig vistuð á sjúkrahúsi. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×